Frá Prjónagleðinni í fyrra. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Frá Prjónagleðinni í fyrra. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Fréttir | 11. janúar 2018 - kl. 21:55
Prjónagleði “ 100 ára fullveldi Íslands

Í kynningarblaðinu Fögnum saman sem fylgir Fréttablaðinu í dag er fjallað um viðburði sem haldnir verða á Íslandi á þessu ári til að fagna því að heil öld er liðin síðan íslenska þjóðin varð fullvalda. Í blaðinu er dagskrá fyrri hluta afmælisársins kynnt. Þar er m.a. fjallað um Prjónagleðina sem haldin verður á Blönduósi 8.-10. júní í sumar þar sem þemað verður 100 ára fullveldi Íslands.

Textílsetrið á Blönduósi stendur fyrir Prjónagleðinni og er þetta þriðja sinn sem hún er haldin. Í blaðinu er rætt við Jóhönnu Erlu Pálmadóttur, framkvæmdastjóra Textílseturs Íslands. „Aðalmarkmiðið með Prjónagleði er að leiða saman áhugafólk, fagfólk og alla þá sem vilja læra meira og deila af reynslu sinni og sögum í sambandi við prjón. Hún er árlegur viðburður sem fer fram aðra helgina í júní en laugardagurinn er alþjóðlegur dagur prjónafólks. Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg, boðið verður upp á fjölda námskeiða og fyrirlestra sem tengjast prjóni á einhvern hátt. Einnig verður prjónavara til sýnis og sölu,“ segir Jóhanna.

Stefnt er að því að nemendur grunnskólanna þriggja í héraðinu komi að verkefninu og prjóni stykki sem tengist 100 ára fullveldi Íslands þar sem leikið verði með liti og áferð. Það yrði einnig til sýnis á Prjónagleðinni. Þá er fyrirhugað að halda samkeppni sem felst í að hanna og prjóna peysu þar sem 100 ára fullveldið er þemað. „Allir geta tekið þátt og er um að gera að nota hugmyndaflugið við prjónaskapinn. Vegleg verðlaun verða í boði og peysurnar sem berast í samkeppni verða til sýnis. Prjónasamkeppninni verður hrint af stað um næstu mánaðamót,“ upplýsir Jóhanna og hvetur áhugasama til að taka fram prjónana sem fyrst.

Nánar má lesa um Prjónagleðina í tengslum við fullveldisafmælið á vefnum www.fullveldi1918, á vef Prjónagleðinnar www.prjonagledi.is, á vef Textílsetursins www.textilsetur.com og í kynningarblaðinu sem fylgir Fréttablaðinu í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga