Fréttir | 23. janúar 2018 - kl. 09:14
Losuðu 30 bíla sem sátu fastir

Björgunarsveitarmenn frá Húnum stóðu í ströngu í gærkvöldi við að losa bíla sem sátu fastir og lokuðu veginum frá Norðurbraut við Hvammstanga að Blönduósi. Allir bílarnir, um 30 talsins, eru lausir og engin slys urðu á fólki en á milli 50 og 60 manns voru í bílunum. Margir ökumenn voru erlendir ferðamenn og ekki vanir aðstæðum en mjög blint var og mikill skafrenningur.

Gunnar Örn Jakobsson, formaður björgunarsveitarinnar bendir á í samtali við mbl.is að þegar erfið akstursskilyrði eru sé slæmt þegar einn bíll stoppar. Þá sé fljótt að skafa að honum og þar af leiðandi sitji hann fastur. Í aðstæðum sem þessum séu dæmi um að færari ökumenn freistist til að taka fram úr en hætta sé á að þeir festist einnig.  

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga