Hnjúkabyggð 34, rísandi hús fyrir mjólkursöfnunina. Ljósm: Jóhannes T.
Hnjúkabyggð 34, rísandi hús fyrir mjólkursöfnunina. Ljósm: Jóhannes T.
Fréttir | 23. janúar 2018 - kl. 09:17
Ámundakinn - Framúrskarandi fyrirtæki

Á dögunum tilkynnti Creditinfo val á "Framúrskarandi fyrirtækjum" ársins 2017.

Ámundakinn ehf. er nú í fjórða skipti eitt rúmlega 850 eða 2,2% fyrirtækja í landinu sem uppfylltu skilyrði til viðurkenningar. Rétt er að nefna að þetta er vegna rekstrarársins 2016.

Helstu skilyrði sem þarf að uppfylla varða jákvæða niðurstöðu í rekstri, skilyrði um eiginfjárstöðu og skilvísi í viðskiptum.

Starfsemi Ámundakinnar ehf. er aðallega tvíþætt, annars vegar eignarhald og rekstur húsnæðis (leiga) og hins vegar eignaraðild og þátttaka í rekstri fyrirtækja. Félagið á stóran eignarhlut bæði í Stíganda ehf. og Vilkó ehf., auk minni hluta í örfáum öðrum félögum.

Sumarið 2015 keypti Ámundakinn gamla vélsmiðjuhúsið á Norðurlandsvegi 4 og er áfram unnið að endurbótum á því húsi. Nú eru fimm aðilar með starfsemi í húsinu og fjögur fyrirtæki komin þar í framtíðaraðstöðu. 

Árið 2016 bættist gamla Mjólkurstöðin á Húnabraut 33 í eignasafnið og er miklum endurbótum þar að mestu lokið. Vilkó hefur nú flutt með alla sína starfsemi í húsið, sem gefur fyrirtækinu mun meira athafnarými og tækifæri til fjöbreyttari framleiðslu.

Snemm árs 2017 var undirrituð viljayfirlýsing milli Mjólursamsölunnar, Ámundakinnar og Kaupfélags Skagfirðinga um að Ámundakinn byggði tæplega 600 fermetra hús á Blönduósi. Þar verður miðstöð fyrir geymslu og þjónustu við mjólkurbíla sem safna mjólk í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Einnig aðstaða fyrir bílstjóra sem flytja mjólkurvörur milli Suður og Norðurlands. Má segja að með þessum samningum séu tryggð 3–4 störf í héraði. Framkvæmdir við húsbygginguna sem er að rísa á Hnjúkabyggð 34, hófust s.l. sumar og stefnt er að því að taka það í notkun á vordögum. Víst er að starfsaðstaða mjólkurbílstjóra verðu allt önnur og betri en nú er.

Þá hófust á haustdögum endurbætur á Bogabraut 1 á Skagaströnd, sem Samkaup hefur á leigu. Vonast er til að þeim verði haldið áfram á þessu ári.

Stjórn félagsins skipa: Valgarður Hilmarsson, Pétur Grétarsson og Jón Gíslason.

Framkvæmdastjóri Ámundakinnar er Jóhannes Torfason. 

​-Fréttatilkynning-

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga