Hlíðará fellur ofan úr Skörðum
Hlíðará fellur ofan úr Skörðum
Pistlar | 25. janúar 2018 - kl. 10:26
Stökuspjall á Pálsmessu: Því ég á í nefið nóg
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Stökuspjall kallar ritari vísnaþátt sinn á Húnahorninu. Þar set ég fram stökur, oft nýskráðar á vísnavef kenndan við flóann bláa. Héraðsskjalasafnið á Blönduósi geymir vísnasafn Sigurðar sonar Sólveigar ljósmóður og Halldórs manns hennar, bjuggu lengst á Selhaga í Hlíðarhreppi. Það kot var ásamt Kálfárdal, Þverfelli, Hlíðarseli og Meingrund kallað uppi í Skörðum. Þessi pistlaröð hófst með organistaspjalli árið 2014 og þeirri bjartsýni að fleiri orð löðuðu sóknarmenn til síns glæsilega guðshúss við Blönduós að hlusta á tónlist og taka þátt í athöfninni undir forystu sóknarprestsins, á þessari eldfornu samkomu, messunni aftan úr öldum. Nú snýst Stökuspjallið um kynningu á vísum og vísnasöfnun, vísa Jóhanns í Oddgeirshólum fékk rúm á Húnaflóavefnum í gær, þó hann byggi við annan flóa um sína daga, en hann varð hagyrðingur nr. 1322, sami fjöldi og hjá nágrönnum okkar í Skagafirði.  En þeir hafa vinninginn með vísnafjöldann, þrefalt fleiri vísur og vel það, sem margar eiga líka heima í safni Sigurðar Halldórsson

Hugum að versum:

Glymur ströng í gljúfrum þröng
garp það öngvan hrelli
rymur löngum súran söng
svífur að þöngulvelli.

Oddhend hringhenda um Blöndu birtist hér, en ekki þarf nema upp hjá Hrútey til að sjá fljótið í klettaþröng en aðalgljúfrin, Blöndugil, eru inn frá Rugludal og Þröm, innstu bæjum í Blöndudal. Þöngulvöllur taldist ágætt heiti á sænum, felur hér bæði í sér innrímsorð og endaríms. En síður mundum við þó grípa til þess þó við reynum að berja saman bögu, lesari góður. Næsti bær utan við Rugludal hét Selland og bóndinn þar, Ágúst Sigfússon, sá vel yfir Blöndu. Þegar mannheldur ís var kominn á fljótið, bættust Ágústi nýir nágrannar, handan árinnar, til að eiga við kaffispjall:

Við það önd mín verður smeyk
að valda gröndum kynni,
ísaböndin eru veik
enn á Blöndu minni.

Ágúst bjó líka í Kálfárdal í Skörðum.

Guðlaugsstaðamenn ólust upp við Blöndunið og mörg orð Huldu á Höllustöðum búa með samferðamönnum hennar þó hún sé horfin. Hún var mikill ljóðaunnandi, einörð starfskona og myndræn í skrifum sínum sbr. eftirfarandi huggunarorð sem hún sendi frænku sinni: „En hvíta blaðið, sem ber boð milli sálna, er þó alltaf dálítið lífsmark og oftast velkomið. Ég held að eitthvað jákvætt svar sé til við öllu sem við mætum eða reynum á lífsleiðínni en stundum er djúpt á því.“ Vinnumaður á Guðlaugsstöðum orti nafnavísu um systkinin:

Hannes, Bergur, Björn, Guðmundur, Dóri
Hulda og Árdís hæverskar
heimasætur gullfagrar.

Sunnan Kjalar sat Flóamaðurinn, Jóhann í Oddgeirshólum og yrkir um Þjórsá og virkjanir hennar:

Þú átt skilið þjóðarhrós
þína líka sjaldan finnum,
sem umbreytist í yl og ljós
í það minnsta fjórum sinnum.

Jóhann vann á haustin á sláturhúsi SS við Ölfusá:

Fljótið rennur álum í
alveg fram til sjávar.
Æti tína upp úr því
endur, hrafnar, mávar.

Í Hvítá stundaði Jóhann veiðiskap eins og tíðkaðist á fleiri bæjum með fljótinu. Fljótið fær Ölfusárnafnið þegar sameinast Sog og Hvítá, niður frá Þrastalundi en Jóhann orti um veðrið:

Úr mér dregur allan mátt
illa veðrið lætur.
Ingólfsfjall er orðið grátt
alveg nið'r í rætur.

Sauðkindin fékk hringhendu:

Alla tíð það unað veitir
út um víðar landsins jarðir.
Ekkert prýðir okkar sveitir
eins og fríðar sauðahjarðir.

Á Akureyri blómstraði menning tengd Húnaþingi á síðustu öld þegar Rósberg G. Snædal, Bjarni frá Gröf og Frímannssynir frá Hvammi gengu þar um stræti og ortu heilu ljóðin og stökufjöld. Þeir RGS og Jón B. Rögnvaldsson gáfu út Húnvetningaljóð 1955, ársritið Húnvetning gaf Rósberg út og fleiri rit og létu hvergi sitt eftir liggja. Þar bjó líka Sigurður frá Selhaga  en fjölskylda ljósmóðurinnar flutti í norðlensku borgina frá Bergsstöðum 1924, synirnir uppkomnir en foreldrar þeirra slitin eftir mörg búferli, langa aðdrætti heim að Selhaga og strangar ljósmóðurvitjanir. Og er ég nú að gleyma sjálfum Rögnvaldi Rögnvaldssyni, bróður áðurnefnds Jóns en sérstökum vini Húnvetninga og margra skólafélaga sem þyrptumst úr gamla menntaskólanum uppi á Brekkunni og út í vorið 1966 – og dreifðust víða. Rögnvaldur hafði virðingarheitið kammerráð, því um árabil sinnti hann húsvörslu undir kirkjutröppunum, hafði þar sjoppurekstur og náðhús voru opin. 

Bjarni frá Gröf hefur kannski gert þessa á þorra:

Lengjast dagar, lækkar fönn
ljómar sól á glugga
guð er farinn að glotta við tönn
gegnum vetrarskugga.

Í vísum Selhagasafnarans getur að líta einu stökuna sem skráð er eftir Fanneyju á Sævarlandi, sem eitt sinn var kaupakona í Tungu í Blöndudal og maður hennar þar kaupamaður. Hún skrifaði stökuna á bók Laxdælingsins Rósbergs, Fólk og fjöll:

Undir sólu eða mjöll
eins og bókin sannar:
Þetta fólk og þessi fjöll
það eru okkar grannar.

Hafsteinn Halldórsson, bróðir safnarans, lét eftir sig minningaljóð í nokkrum stökum. Hér er sú fyrsta:

Ánægður um ævisjó
ennþá stýri fleyi
því ég á í nefið nóg
nærri á hverjum degi.

Kannski hittumst við, lesari góður, í Blönduóskirkju á sunnudagskvöldið, Pálsmessan verður nýliðin!

Tilvísanir:
Blönduvísur: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?ID=79
Um hvíta blaðið/Hulda á Höllustöðum: http://stikill.123.is/blog/2017/05/27/765618/
Jóhann í Oddgeirshólum: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=28297
Árstíðavísur: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?ID=42
Fanney Reginbaldsdóttir: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24718
Hafsteinn frá Selhaga: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=18374
Sigurður frá Selhaga: http://stikill.123.is/blog/2017/02/24/761266/
Af Laxárdal, samtíningur: http://stikill.123.is/blog/record/504051/
Efnisyfirlit – eldri hluti Stikils: http://stikill.123.is/blog/2007/07/02/124393/
Organistapistlar: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11488
Frá Olla í Hvammi og Halldóru 108 ára: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=10798
Sjal í mildum faðmi: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11339
Af messudegi Guðmundar á Bergsstöðum: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11279
Organistapistill á Pálsmessu 2014, Páll Kolka héraðslæknir Húnvetninga: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=10635

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga