Pistlar | 04. febrúar 2018 - kl. 14:24
Endurvekjum Lionsklúbb Blönduóss
Eftir Jón Pálmason og Björn Guðmundsson

Af hverju Lions?

Nú stendur fyrir dyrum að endurvekja Lionsklúbb Blönduóss. Lionsklúbburinn á sér langa og glæsta sögu en á síðustu árum hefur hallað undan fæti. Til tals kom að leggja klúbbinn niður en þegar á reyndi vildu þeir félagar sem enn eru í klúbbnum reyna að endurvekja klúbbinn og breyta honum. 

Hvað gera Lionsklúbbar?

Lionsklúbbar eru vettvangur fyrir félagslynt fólk sem vill leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Í klúbbunum myndast vinabönd, félagar eiga kost á að afla sér fræðslu og styrkja sjálfa sig í leik og starfi.  Síðast en ekki síst afla klúbbarnir fjár sem gefið er til valinna verkefna í samfélaginu, að mestu leyti í nærsamfélaginu.  Víða er það þannig að skólarnir, dvalarheimilin, sjúkrastofnanir, björgunarsveitir og fleiri fá hluta af sínu rekstrarfé frá Lionsklúbbunum.  Lionsklúbbar landsins eru síðan tengdir saman þannig að þeir geta notið stuðnings hver af öðrum.  Fyrst og fremst geta Lionsklúbbar verið góður vettvangur til þess að efla tengsl milli fólks sem vill láta gott af sér leiða.

Kynningarfundur fimmtudagskvöldið 8. febrúar kl. 20 í Eyvindarstofu

Ákveðið hefur verið að halda kynningarfund á hreyfingunni og þeim hugmyndum sem við höfum um starfsemi Lionsklúbbs Blönduóss í framtíðinni.  Fundurinn er opinn körlum og konum en fyrirhugað er að endurreistur klúbbur verði blandaður þannig að í honum verði bæði karlar og konur.  Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að taka þátt í endurreisninni að koma og kynna sér málið.

Jón Pálmason fjölumdæmisstjóri

Björn Guðmundsson umdæmisstjóri 109B

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga