Frá Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Frá Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Fréttir | 09. febrúar 2018 - kl. 12:07
„Bjartsýni ríkjandi á Blönduósi“

Arnar Þór Sævarsson bæjarstjóri Blönduósbæjar segir í nýjasta tölublaði Bændablaðsins að á heildina litið sé bjartsýni ríkjandi á Blönduósi. Íbúum hafi fjölgað og atvinna hafi vaxið, t.d. í þjónustugeiranum og í ferðaþjónustu. „Okkur vantar mannskap en til að fá fólk til okkar þarf húsnæði fyrir það að vera til staðar. Við eigum lausar lóðir og fyrir liggur að hefja vinnu við að skipuleggja ný svæði,“ segir Arnar Þór.

Arnar Þór segir að það hafi verið afskaplega dauft yfir byggingamarkaði á Blönduósi frá hruni, líkt og gildi um marga aðra staði á landinu. Nú sjáist merki þess að breyting verði á, verktakar séu að hugsa sér til hreyfings og vilji gjarnan byggja. Bændablaðið nefnir að Uppbygging ehf., sem er í eigu Engilberts Runólfssonar, hafi óskað eftir lóð fyrir 20 íbúða fjölbýlishús á fimm hæðum og að Húnaborg ehf. hafi óskað eftir lóðum fyrir atvinnu- og geymsluhúsnæði og fyrir tveimur raðhúsum.

„Íbúum á Blönduósi hefur fjölgað undanfarið, staðan er sú að hvert einasta rými er nýtt sem til er, það hefur því skapast mikil þörf hér í bænum fyrir nýtt húsnæði. Eitthvað er um að húsnæði sé notað til útleigu fyrir ferðamenn, það hefur í för með sér að leiguverð hefur hækkað og það virkar sem hvati fyrir byggingaverktaka að bæta við sig húsnæði. Hjá því verður reyndar ekki horft að staðan er auðvitað sú hér og víða annars staðar í hinum dreifðu byggðum að byggingakostnaður er um það bil helmingi hærri en markaðsverð eignanna. Það er bara staða sem við verðum að horfast í augu við,“ segir Arnar Þór í viðtali við Bændablaðið sem kom út í gær.  

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga