Fréttir | 12. febrúar 2018 - kl. 09:27
Niðurlagning Blöndulínu vonbrigði

Landbúnaðarráð Húnaþings vestra lýsir yfir vonbrigðum með þá ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að leggja niður Blöndulínu sem varnarlínu. Í fundargerð ráðsins frá því í síðustu viku segir að ekki hafi komið upp riða í Húnahólfi síðan árið 2007 en í Skagahólfi hafi riða síðast komið upp árið 2016. Þarna muni nærri 10 árum og verði að teljast óeðlilegt að slíkt kallist sama sjúkdómastaða.

Í bókun landbúnaðarnefndar segir: „Í maí árið 2016 ákvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp til að skila tillögum til ráðuneytisins um endurskoðun auglýsingar um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma. Í tillögunum skyldi koma fram hvaða varnarlínum skyldi halda við og eftir atvikum hvaða varnarlínur starfshópurinn mælti með að lagðar yrðu niður, ásamt greinargerð þar að lútandi. Hópurinn skilaði af sér í mars 2017 og er skemmst frá því að segja að starfshópurinn lagði til að Blöndulína yrði áfram varnarlína. Landbúnaðarráð telur undarleg vinnubrögð að gengið hafi verið gegn tillögum starfshóps sem var skipaður af ráðuneytinu sjálfu.“

Tengd frétt:

Niðurfelling Blöndulínu sem varnarlínu

 

Skrifað af: Ragnar Z Guðjónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga