Pistlar | 25. mars 2018 - kl. 16:23
Bæn dagsins, alla daga
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Kærleiksríki Guð, þú sem ert höfundur og fullkomnari lífsins, miskunna þú okkur!

Við þökkum þér fyrir þennan dag og alla þína náð. Viltu vaka yfir okkur í dag, leiða okkur og vernda. Blessaðu þau sem við unnum heitast og svo líka bara öll þau sem á vegi okkar verða. Blessaðu samskiptin og hjálpaðu okkur að vera nærgætin og koma fram við hvert annað af virðingu.

Blessaðu hugsanir mínar allar, öll mín áform, markmið, drauma og verk. Hjálpaðu mér að koma auga á þarfir náungans, koma honum til hjálpar og reynast honum vel. Vera faðmur, öxl og skjól þegar á þarf að halda.

Kenndu mér að hlusta á umhverfi mitt og lesa í aðstæður. Hjálpaðu mér að vera kærleiksríkur, jákvæður, uppörvandi og hvetjandi. Þolinmóður og dæma ekki, sýna umhyggju, skilning og umburðarlyndi.

Viltu gefa mér styrk til að takast á við þau verkefni sem á vegi mínum verða í dag. Hjálpaðu mér að ganga þakklátur, jákvæður og glaður til verka, ekki með ólund, nöldri eða neikvæðni, tortryggni eða leiðindum.

Opnaðu augu mín fyrir þeim tækifærum sem blasa við og hjálpaðu mér að nýta þau, vinna úr þeim og um leið að njóta lífsins og þeirrar fegurðar sem það hefur upp á að bjóða.

Gef að ég fái lifað í sannleika og sátt við sjálfan mig, þig, samferðafólk mitt og umhverfi. Að ég mætti þannig umgangast alla menn í heiðarleika og með góðri samvisku og fái að vera farvegur kærleika þíns, friðar og fyrirgefningar.

Þess bið ég í nafni okkar upprisna frelsara og eilífa lífgjafa, Jesú Krists. Amen.

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga