Pistlar | 30. mars 2018 - kl. 11:15
Lífið hefur sigrað
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Að krossinum þínum, Kristur, ég kem. Krjúpandi bið um miskunn og náð. Að krossinum, þar sem þú dóst í minn stað.

Í vanmætti ég kem, þiggjandi styrk. Í auðmýkt að krossinum ég kem.

Faðmur þinn opinn er, týndu barni þú býður þar stað. Með nafni þú kallar á mig.

Þú greiddir gjaldið fyrir sekt mína og synd svo í þakklæti, ég lifa vil þér. Að krossinum þínum, Kristur, ég kem.

Speglun

Það var ekki fyrr en ég speglaði mig í krossinum og sá pínu þína dregna á langinn að mér varð loks ljóst hversu syndugur ég er.

Fyrirgefðu mér, Jesús. Miskunna þú mér. Stilltu mig af og hjálpaðu mér að lifa þér í þakklæti. Helgaðu mig þér og hjálpaðu mér að biðja í einlægni og af auðmýkt: Verði þinn vilji.

María Magdalena og englarnir

Veistu, að það voru englarnir sem veltu steininum forðum frá hinni dularfullu austurlensku gröf. Það var ekki svo Jesús kæmist út, heldur til þess að við sæjum inn. Gröfin var tóm.

Og veistu, að þú getur fengið þessa sömu engla í lið með þér. Til að vaka yfir þér og leiði, vegna þess sem gerðist inni í gröfinni. Jesús var uppvakinn frá dauðum. Hann lifir og þú munt lifa! Ef þú vilt.

Og muniði hver það var sem kom fyrst að hinni tómu gröf og mætti síðan Jesú upprisnum eftir að vinir hans, strákarnir, lærisveinarnir höfðu flúið frá honum, afneitað og læst sig inni af ótta, allir nema kannski einn. Það var einmitt kona, takið eftir því. Það var kona að nafni, María Magdalena, sem fór til þeirra og sagði þeim frá.

Og við erum enn að tala um þennan atburð sem sett hefur meiri svip á menningu okkar vestræna heims en nokkuð annað enda miðum við tímatal okkar við hann, það er að segja við fæðingu frelsarans Jesú.

Lykillinn að lífinu

Aftur og aftur er það kraftur Krists sem kemur heiminum til bjargar þegar allt er að komast í þrot og erindi lífsins virðist í dauðateygjunum.

Lykillinn að lífinu er ljósið sem blásið var á en lifnaði aftur og logar nú blítt.

Það er ljósið leið minni á. Lampi sem yljar og vermir. Hönd sem leiðir, líknar og blessar. Friðelskandi hjarta sem uppörvar mig og styður. Andi sem fær mig til að vilja halda áfram. Leggja það á mig að lifa og njóta í þakklæti.

Leyfum kærleikanum að stilla sína strengi í okkar viðkvæmu hjörtum svo hann fái notið sín, flögrað um og borið birtu og yl með sínum fögru, umvefjandi og hlýju vængjum. Og við þannig orðið farvegur friðar og farsældar á vegum okkar.

Kærleikans ylur í hjartað streymir þegar við gerum það að vöggu frelsarans. Þá upplifum við himininn kyssa jörðina. Leyfum honum að setjast þar að og þroskast og dafna til eilífs lífs.

Lifið er dásamleg himnesk gjöf. Missum ekki af því. Það elskar okkur öll. Látum því eftir okkur að þiggja það og njóta þess í stað þess að bölva því og hallmæla. Því lífið er í eðli sínu fallegt og gott.

Gleðilega páska! Með kærleiks- og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga