Pistlar | 28. apríl 2018 - kl. 17:53
Okkar áhrifamesti áheyrnarfulltrúi
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Siðir, hefðir og viðteknar venjur kunna að koma og fara. Lög og reglur, menning og viðmið breytast. En dæmisögur Jesú, kærleikur, fyrirheit, friður, orð, ást og verk munu áfram halda ferskleika sínum. Vekja til umhugsunar um lífið, mannkærleika og það sem skiptir máli. Svo lengi sem veröldin stendur. Þrátt fyrir allt og alla strauma og stefnur.

Afl vonar og kærleika

Jesús Kristur er nefnilega ekki einhver útbrunninn kvistur, trénaður tappi eða barn síns tíma. Heldur sí ferskur og hvetjandi, lífgefandi andi. Afl trúar, vonar og kærleika. Hann kom ekki til að segja, þú skalt eða þú verður, annars. Heldur sagði hann: "Komið til mín öll þið sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita ykkur hvíld." 

Sigurvegari

Hvað veistu annras mikilvægara en það að vera valin í lið lífsins og fá að spila með til sigurs? Og þótt einstaka viðureignir kunni að tapast muntu að lokum standa uppi sem sigurvegari.

Jesús Kristur er sigurvegari dauðans og lífsins. Okkar áhrifamesti áheyrnarfulltrúi, talsmaður, bróðir og sanni vinur í þeim þrengingum sem heimurinn hefur upp á að bjóða og við kunnum að lenda í.

Að ætla að kenna Guði um hið illa í heiminum er eins og að kenna ljósinu um myrkrið, sólinni um skýin, sumrinu um veturinn eða lífinu um dauðann. Hefurðu spáð í það?

Hver á annars meiri kærleika en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína? Hvað þá svo þeir fái lifað um eilífð?

Jesús sagði: „Þótt himinn og jörð munu líða undir lok, munu orð mín aldrei undir lok líða.“

Ekki padent lausnir eða regluverk

Kristin trú er ekki einhverjar padent lausnir eða eitthvert regluverk. Heldur opinn og hlýr elskandi faðmur Guðs sem ber raunverulega umhyggju fyrir okkur. Kristin trú snýst ekki um að hafa allt á hreinu, vita allt best og vera bara gjörsamlega með þetta. Þvert á móti. Hún snýst um að taka á móti í auðmýkt, þiggja og lifa í þakklæti.

Ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs. 

Snýst ekki um að toppa einhverja hugmyndafræði

Málið snýst ekki um að útbreiða einhverja bók eða alheimsvitund sem enginn veit hvaðan er komin eða um hvað er. Og málið snýst ekki um að toppa einhverja hugmyndafræði heldur að hvíla í, þakka og njóta.

Dýrmæta þjóð! Hver sem lífsskoðun okkar er. Látum engan ræna okkur voninni eða líta smáum augum á trú okkar. Því hún er ekki spurning um mikið eða lítið heldur allt eða ekkert.

"Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist." Sagði frelsarinn okkar.

Guð blessi þau öll lífs og liðin sem í gegnum árin og aldirnar hafa lagt sitt af mörkum til að koma kærleika og friði Guðs áfram frá hjarta til hjarta.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga