Pistlar | 30. apríl 2018 - kl. 15:37
Tölum um tilfinningar
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Er ekki kominn tími til að tala um tilfinningar? Hætta að bíta bara á jaxlinn, láta sem ekkert sé, töffarast áfram og reyna að gleyma?

Það er þungt að verða fyrir áfalli og eða missa. Og missir getur verið margvíslegur. Vina missir og atvinnumissir svo eitthvað sé nefnt. Missir eigin getu vegna slyss eða sjúkdóma. Missir foreldra, systkina, barna, maka eða annarra ástvina. Þar sem allt verður svo hrikalega sárt og við upplifum jafnvel einhverskonar höfnun um stund. Öll áföll eru þung og verða ekki með góðu móti afgreidd á léttvægan hátt með einhverjum útskýringum þar sem skautað er í gegnum tilfinningar á hraðferð.

Hvernig líður þér í dag?

Tölum um tilfinningar. Tölum um líðan okkar. Spyrjum ekki bara leiðandi spurninga eins og "hvað segir þú gott í dag?" eða "hvað segirðu, er ekki bara allt gott, eru menn ekki bara hressir?"

Er ekki nær að spyrja: "hvernig hefurðu það í dag" eða "hvernig líður þér í dag?"

Látum af yfirborðsmennsku í samskiptum og því að spyrja frétta en hlusta síðan ekki á svarið sem við höfum eftir allt saman kannski bara takmarkaðan áhuga á að heyra.

Það er gott að gráta

Það missir enginn eins og þú. Það syrgir enginn eins og þú. Það saknar enginn eins og þú, því það er enginn eins og þú og það líður engum nákvæmlega eins og þér. Það bregst því enginn nákvæmlega eins við og þú.

Þú ert samt ekki eitthvað skrítin eða með tilfinningar sem þarf að bæla eða loka á eða fá hjálp við, nema í fæstum tilfellum. Þvert á móti.

Veistu að þótt þú syrgir, saknir, grátir og finnir til þá má líka alveg brosa og hlæja inn á milli án þess að það þyki eitthvað óeðlilegt.

Og veistu að svo er það bara styrkleika merki að gráta af gleði og þakklæti. Það er ákveðið vottorð um heilbrigði. Það að sýna ekki tilfinningar er nefnilega veikleikamerki. Hefting sem sem setur á okkur þungt farg. Við þurfum að fá heilnæma útrás tilfinninga og finna þeim eðlilegan farveg.

Það er svo þungt að missa, tilveran er skekin á yfirþyrmandi hátt. Angist fyllir hugann, örvæntingin og umkomuleysið er algjört. Tómarúmið hellist yfir og tilgangsleysið virðist blasa við.

Það er svo sárt að sakna en það er gott að gráta. Tárin eru dýrmætar daggir, perlur úr lind minninganna. Minninga sem tjá kærleika og ást, væntumþykju og þakklæti fyrir liðna tíma. Minninga sem þú einn átt og enginn getur afmáð eða frá þér tekið.

Tárin mýkja og tárin styrkja. Í þeim speglast fegurð minninga og þakklætis. "Sælir eru sorgbitnir því að þeir munu huggaðir verða." Og sælir eru þeir sem eiga von á Krist í hjarta því að þeir munu lífið erfa og eignast framtíð bjarta.

Hlúum hvert að öðru

Það er svo mikilvægt að við stöndum saman. Hlúum hvert að öðru og veitum sjálfum okkur og öðrum það skjól sem á þarf að halda og rými til að syrgja á okkar hátt og til að takast á við áföll, vonbrigði og söknuð. Og síðan jafnframt til að rækta okkur og byggja okkur upp að nýju með einhverjum hætti til að líta bjartari daga. Jafnvel þótt allt sé breytt og ekkert verði eins og áður var.

Stöndum saman, sýnum hvert öðru virðingu, nærgætni og skilning. Því þá verður allt svo miklu betra. Gefum vonina aldrei frá okkur.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga