Pistlar | 08. maí 2018 - kl. 08:56
Enn af sveitarstjórnarmálum
Eftir Gunnar Rúnar Kristjánsson

Nú þremur vikum fyrir sveitarstjórnarkosningar er fróðlegt að vita hvað kjósendum er efst í huga. Ef marka má fjölda framboða í Reykjavík getur hver og einn kjósandi fundið sér einhvern lista til að kjósa. Lengi vel voru það samgöngur og húsnæðismál sem allir frambjóðendur hugðust stórbæta í Reykjavík en nú hefur margt annað bæst við. Hvað hugsa kjósendur í Austur Húnavatnssýslu?

Ég þykist vita að hugur margra er bundinn við sauðburð fyrst og fremst. Aðrir eru með hugann við prófin og enn aðrir með hugann við eitthvað allt annað. Sveitarfélögin í A-Hún. hófu í lok þessa kjörtímabils að ræða sameiningu sveitarfélaganna fjögurra. Samið var við ráðgjafa-fyrirtækið Ráðrík ehf. um að vinna skýrslu um framtíðarskipan sveitarfélaga í A-Hún. Ráðgjafarfyrirtækið hélt sex fundi í sýslunni strax eftir páska þar sem þær kynntu vinnu sína fram að þeim tíma. Þá var fundarmönnum skipt niður í þrjá hópa og verkefnið var að SVÓT – greina sveitarfélögin hvert fyrir sig og gera síðan aðra SVÓT – greiningu á sameinuðu sveitarfélagi þessara fjögurra sveitarfélaga í sýslunni. SVÓT stendur fyrir; Styrkleikar, Veikleikar, Ógnanir og Tækifæri.

Myndin hér til hægri sýnir dæmi um SVÓT – greiningu í sameinuðu sveitarfélagi í A-Húnavatnssýslu. SVÓT – greining er mikið notuð í stefnumótunarvinnu í fyrirtækjum og stofnunum. Það er mjög persónubundið hvernig SVÓT – greining lítur út. Það sem sumir sjá sem styrkleika eru veikleikar hjá öðrum og jafnvel ógnun. Aðrir nefna sama hlutinn sem styrkleika og veikleika og svo mætti lengi telja. Ég hefði geta nefnt enn fleiri hluti en hér eru taldir upp í stikkorðastíl en læt það vera. Lesendur geta velt þessu fyrir sér og gert sína eigin SVÓT – greiningu á annars vegar óbreyttri sveitarfélagaskipan og hins vegar á einu sveitarfélagi í A-Hún.

Annað sem fram kom á fundunum var nauðsyn þess að gera einhverskonar sáttmála sem unnið yrði að í sameinuðu sveitarfélagi. Tekið var dæmi um sameiningu sveitarfélaga á fjörðunum fyrir austan. Þar voru allir sammála um að það hafi verið vegna sameiningarinnar í sveitarfélagið Fjarðabyggð að álver var byggt þar. Það gleymdist hinsvegar að ræða önnur mál en atvinnumál og það hafi reynst þyngra að leysa en búist var við. „Ráðríku“ konurnar bentu á nauðsyn þess að samninganefnd skyldi ígrunda vel hvaða málum skyldi vinna að í sameinuðu sveitarfélagi. Þær voru vissar um að þó svo að sveitarstjórnin yrði skipuð öðrum fulltrúum eftir sameiningu myndi engin fulltrúi fara gegn vilja íbúa hins nýja sveitarfélags. Hvað á slíkur sáttmáli að innihalda? Að skólastigin tvö verði ekki lakari en í öðrum sveitarfélögum, að samfella verði í skólastarfi, tónlistarnámi, íþrótta- og tómstundaiðkun, fjallskil verði eins og lög kveða á um, landbúnaðarnefnd verði ein af fastanefndum svo og iðnaðarnefnd, menningu og listum verði sinnt, stjórnsýslan verði að mestu leyti á Blönduósi (miðsvæðis), áhaldahús verði rekin bæði á Blönduósi og á Skagaströnd, höfnin á Skagaströnd verði betur nýtt (t.d. byggður garður til að tryggja komu skemmtiferðaskipa), sameining bæjarhlutana á Blönduósi (t.d. með lagningu göngu- og hjólabúar yfir Blöndu við ósinn) og að félags- og skólaþjónustan verði efld til muna.

Eflaust má bæta við þennan lista og stroka eitthvað út en ég er viss um að það var eitthvað í þessa veru sem gleymdist að ræða þegar Neskaupstaður, Eskifjörður og Reyðarfjörður voru sameinaðir. Á fundunum nefndu allflestir að tækifærin væru fyrst og fremst að finna í ferðaþjónustunni. Það er því rakið að atvinnumálanefndin í sameinuðu sveitarfélagi þurfi að forgangsraða sínum verkum í þá átt fyrst um sinn. Það er hins vegar ljóst að það mun taka tíma að sameina sveitarfélögin og verður það helsta verkefni sveitarstjórnar að vinna að því ásamt starfsmönnum þess á fyrsta og öðru kjörtímabilinu.

Eflaust er það misjafnt hvort fólki í A-Húnavatnssýslu finnst sameining komin á dagskrá í næstu kosningum eður ei. Það er hins vegar klárt að þær sveitarstjórnir sem kosnar verða nú þurfa að taka ákvörðun um það hvort halda eigi áfram umræðum um sameiningu og hvort ráðgjafafyrirtækið á að klára sína vinnu eða hvort láta á staðar numið. Þetta segir okkur að listarnir sem bjóða fram í sýslunni þurfa að geta svarað kjósendum fyrir kosningar um þessi mál. Hvort heldur sem framboðin eru hlutlaus, fylgjandi eða andvíg sameiningu þarf það að koma skýrt fram hvert þau stefna í áframhaldandi vinnu við sameiningu. Það er kannski til of mikils mælst að framboð sem eru beinlínis á móti sameiningu vinni í starfshópi um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra og það má jafnvel segja það sama um þau framboð sem eru hlutlaus í málinu. Vinnan og umræðurnar í sameiningarnefndinni hljóta að snúast um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra en ekki um að sameinast ekki eða að sjá til.

Gunnar Rúnar Kristjánsson
Áhugamaður um sveitarstjórnarmál   

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga