Fréttir | 14. maí 2018 - kl. 10:18
Elsa nýr forstöðumaður Þekkingarsetursins

Elsa Arnardóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Þekkingarsetursins á Blönduósi og hóf hún störf 1. maí síðastliðinn. Alls sóttu fjórir um stöðuna sem auglýst var í byrjun árs. Elsa er með B.A. próf í mannfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands, diplóma í textíl við Myndlistaskólann í Reykjavík og er að ljúka meistaranám við Listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Hún starfaði sem forstöðumaður Fjölmenningarsetursins á Ísafirði í þrettán ár, en á þessum tíma þróaðist starfsemin frá því að vera tímabundið verkefni með einum starfsmanni í opinbera stofnun á föstum fjárlögum.

Sem forstöðumaður Fjölmenningarsetursins var það hlutverk Elsu að bera ábyrgð á daglegum rekstri og starfssemi stofnunarinnar auk þess að vinna að stefnumótun, áætlanargerð og þróun samstarfsverkefna m.a. með sveitarfélögum og fræðslustofnunum. Það mun einnig verða hluti af starfi hennar hjá Þekkingarsetrinu.

Ráðning Elsu kemur í kjölfar sameiginlegrar stefnumótunarvinnu Textílseturs Íslands og Þekkingarsetursins á undanförnum árum. Fyrrverandi framkvæmdastjóri setursins, Katharina Schneider, mun starfa áfram hjá setrinu og hafa umsjón m.a. með verkefnaþróun, kynningum og upplýsingamál.

Sagt er frá þessu á vef Þekkingarsetursins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga