Pistlar | 18. maí 2018 - kl. 11:01
Gamli bærinn okkar á Blönduósi - núverandi staða og framtíðarsýn
Eftir Sigþrúði Sigfúsdóttur

Nú á dögunum rann út frestur okkar íbúa- og fasteignaeigenda í gamla bænum á Blönduósi til athugasemda og andmæla fyrirhuguðum lögum um verndarsvæði í byggð. Samkvæmt upplýsingum sem undirrituð hefur undir höndum, bárust að minnsta kosti andmæli frá 29 fasteignaeigendum sem varðar 20 fasteignir á skilgreindu verndarsvæði í byggð. Samkvæmt áformum bæjarins eru 44 fasteignir sem á að setja undir verndarsvæði í byggð í gamla bænum á Blönduósi.

Blönduósbær er eigandi þriggja fasteigna af þessum 44 þannig að meira en helmingur fasteignaeigenda skiluðu inn andmælum. Margir fasteignaeigendur á fyrirhuguðu verndarsvæði skiluðu einnig inn viðbótarandmælum er varðaði beint þær kvaðir sem verið er að setja á fasteignir. Það vekur athygli að allnokkrir eigendur fasteigna í gamla bænum höfðu enga vitneskju um fyrirætlanir bæjarins varðandi verndarsvæði í byggð og höfðu því ekki nýtt sér lögbundin rétt sinn til að andmæla framkvæmd laganna á Blönduósi. Það skýrist af því að umræddir eigendur hafa ekki fasta búsetu á Blönduósi og njóta þess ekki að heyra fréttir úr nærsamfélaginu á staðnum. Sumir hafa einnig heimilisfesti erlendis.

Í byrjun þessara viku bárust svör frá Blönduósbæ, varðandi athugasemdir og andmæli húseigenda. Margir andmælendur hafa haft samband við undirritaða og líst furðu sinni og hryggð yfir svörum bæjaryfirvalda. Í stuttu máli þá virðast öllum andmælum og athugasemdum sé hafnað. Því miður sé ekki rými fyrir framlag og hugmyndir húseigenda sjálfra. Það virðist vera að hafið sé ferli þar sem bæjaryfirvöld ætla einhliða að keyra málið í gegn.

Í leiðbeiningarriti Minjastofnunar Íslands er fjallað um hvernig standa skuli að vinnu við verndarsvæði í byggð. "Í lögunum og reglugerðinni er lögð áhersla á að haft sé samráð við íbúa og aðra þá sem hagsmuna eiga að gæta við gerð tillögu um verndarsvæði í byggð. Með þátttöku íbúa við gerð tillögunnar skapast skilningur á listrænu og menningarsögulegu gildi byggðarinnar. Þannig er líklegra að ná megi almennri sátt um verndun hennar. Slík sátt er grundvöllur þess að markmið um verndun nái fram að ganga, því íbúar og eigendur einstakra húsa gegna mikilvægu hlutverki við verndun byggðarinnar með viðhaldi á húsum og mannvirkjum. "

Það blasir við að Blönduósbær hefur ekki fylgt eftir þessum leiðbeiningum og ljóst er að stjórnsýsla Blönduósbæjar kolfellur á prófinu. Á þeim tveimur opnu fundum sem haldnir voru til kynningar verkefnisins var fundargestum aðeins gefnar fáeinar mínútur til þess að rissa á blað viðhorf sín til styrkleika og veikleika ákveðinna svæða innan fyrirhugaðs verndarsvæðis. Margir eru því að velta því fyrir sér hvar samráðið og samtalið sé og/eða hvort sjónarmið íbúa og fasteignaeigenda hafi eitthvað að segja, en flest andmælanna snúa einmitt að því að umrætt samráð eða samtal hafi verið í skötulíki.

Fram að þessu hefur Blönduósbær ekki lagt fram neina áætlun er varðar framtíðarsýn, stefnu eða áform um einhverskonar uppbyggingu í gamla bænum á Blönduósi. Viðhald innviða er í algjöru lágmarki. Engin viðleitni er til fegrunar. Búið er að loka eina framlagi bæjarins til menningarstarfsemi í Hillebrandshúsi. Það er því alveg ljóst eins og staðan er, að ef einhverskonar uppbygging á að eiga sé stað eru það fasteignaeigendur í gamla bænum sem einir eiga að bera kostnaðinn af því. Við hjá Íbúa- og hollvinasamtökunum gamla bæjarins erum því að horfa upp á að engin opinber áætlun er finnanleg um uppbyggingu gamla bæjarins eftir tveggja ára vinnu um verndarsvæði í byggð á Blönduósi.

Í okkar huga þýðir þetta áframhaldandi niðurníðsla og stöðnun byggðarþróunar og uppbyggingar á elsta hluta Blönduósbæjar. Það sorglega er að gamli bærinn okkar ætti að vera helsta aðdráttarafl staðarins og stolt okkar allra, Hann er því miður ljósárum á eftir öðrum bæjarfélögum við þjóðveginn hvað varðar uppbyggingu á áhugaverðum stöðum þar sem ferðamenn vilja staldra við til að njóta þeirra þjónustu sem boðið er upp á.  

Okkur sem höfum bundist ástfóstri við gamla bæinn á Blönduósi svíður þessi framganga fulltrúa bæjarins. Við erum því vön að það hvessi um stund og kólguský bregði upp á himininn. En ávallt afhjúpar þetta einstaka bæjarstæði hrikaleik sinn og fegurð við slíkar aðstæður. Í samanburði við stórfengleik náttúrunnar virðast verk og hugmyndir mannanna smá. Andspænis þessum kröftum er eina svarið að temja sér auðmýkt og virðingu. Hvað embættismenn og kjörnir fulltrúar mættu temja sér einnig. Þeir hafa það erindi og ábyrgð að gæta hagsmuna samfélagsins í heild. Persónulegur ofmetnaður eða óljósir hagsmunir mega aldrei skyggja á þessi mikilsverðu málefni sem þeim eru falin. 

Einn af okkar góðu embættismönnum á Blönduósi, Guðbjartur Á Ólafsson fyrrverandi bæjartæknifræðingur og byggingarfulltrúi á Blönduósi hefur gefið mér leyfi til að birta andæli hans er varðar lög um verndarsvæði í byggð á Blönduósi. Þau eru hér birt Blönduósbúum til upplýsingar. Þessi andmæli Guðbjarts má lesa hér fyrir neðan.

Ég vill gera það að lokaorðum mínum að það sé í höndum nýrrar sveitarstjórnar að vinna að þessu verkefni eins og lögin segja til um, og jafnframt í samráði við fasteignaeigendur í gamla bænum og aðra íbúa á Blönduósi, á lýðræðislegan hátt.

Sigþrúður Sigfúsdóttir formaður íbúa- og hollvinasamtaka gamla bæjarins á Blönduósi.

 

Bæjarstjórn Blönduósbæjar                                                                                          Reykjavík 3. apríl 2018

Skipulagsfulltrúi

Hnjúkabyggð 33

540 Blönduós.

Ég undirritaður eigandi fasteignarinnar Blöndubyggð 5 í “Gamla bænum“ á Blönduósi lýsi mig hér með, á þessu stigi málsins, andsnúinn því að tillaga Blönduósbæjar um verndarsvæði í byggð verði sett í auglýsingu. Undirbúningur og framsetning áætlunarinnar virðist vandaður en með öllu vantar að veita almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til að koma sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri við sveitarstjórn áður en ákvörðun er tekin um endanlega gerð hennar. Það er grundvallar mál að svona lögfesting á skipulagi, sem mun þrengja verulega athafnafrelsi húseigenda, sé gert í ýtarlegu samráð við þá og það er bæði í anda laganna og greinargerðarinnar sjálfrar að svo skuli vera, en ég var t.d. aldrei boðaður til kynningar á þessum áformum. Ég kom að gerð aðalskipulags Blönduóss fyrir 1993 – 2013 með Guðrúnu Jónsdóttur sem byggingarfulltrúi og bæjartæknifræðingur og þar var stefnan sett á þetta með orðunum: “Blönduós er í hópi þeirra örfáu staða á Íslandi, sem getur státað af heillegri götumyndun frá fyrstu tugum þessarar aldar. Ef rétt er á málum haldið getur þessi staðreynd orðið mikil lyftistöng fyrir staðinn á komandi árum m.a. í sambandi við ferðaþjónustu. Gamli bæjarkjarninn getur t.d. í lagfærðri mynd orðið mikið augnayndi og einstakur í sinni röð.“
En það verður að halda rétt á málum.

Að lokum vitna ég til laganna ( 87/2015 ) en þar segir: “Sveitarstjórn skal að loknum sveitarstjórnarkosningum meta hvort innan staðarmarka sveitarfélagsins sé byggð sem hafi slíkt gildi hvað varðveislu svipmóts og menningarsögu varðar, ásamt listrænu gildi, að ástæða sé til að útbúa tillögu til ráðherra um að hún verði gerð að verndarsvæði í byggð veita almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til að koma sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri við sveitarstjórn áður en ákvörðun er tekin um framkvæmdina.“

Það er því lýðræðislegt að í væntanlegum sveitarstjórnarkosningum sé hægt að taka þessa áætlun til umræðu en ekki vera í fljótræði að þrýsta henni í gegn og ala á tortryggni íbúa.

Virðingarfyllst
Guðbjartur Á. Ólafsson, byggingartæknifræðingur

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga