Pistlar | 25. maí 2018 - kl. 23:51
Setjum x við Ó!
Eftir Önnu Margreti Sigurðardóttur

Kæru Blönduósingar.

Á morgun, laugardag, göngum við til kosninga. Við á Óslistanum viljum þakka öllum sem hafa komið til okkar undanfarnar vikur. Vel hefur verið mætt á alla viðburði framboðsins og alltaf góður hópur sem hefur komið til okkar á kosningaskrifstofuna. Við finnum það að á bak við alla á listanum er stór hópur sem styður okkur og vill sjá okkur leiða samfélagið næstu fjögur árin.  

Við á Óslistanum erum samheldinn hópur fólks sem hefur áhuga á því að vinna fyrir sveitarfélagið. Hópurinn treystir sér til þess að ákveða, í góðu samráði við íbúa, hvað sé sveitarfélaginu fyrir bestu án þess að hagsmunaárekstrar hafi áhrif á ákvarðanatöku. Við erum reynslumikil úr ýmsum sviðum samfélagsins, sum okkar hafa reynslu af atvinnulífinu, önnur úr stjórnmálum og stofnunum sveitarfélagsins. Við teljum okkur hafa margt fram að færa og þar sem reynsla okkar liggur víða getum séð málin frá mörgum ólíkum sjónarhornum.

Þó svo að góðir og sterkir leiðtogar séu mikilvægir er ekki nóg að treysta einni manneskju fyrir heilu sveitarfélagi. Raddir margra verða að koma að borðinu til þess að besta niðurstaðan fáist. Við á Óslistanum erum sannfærð um að okkur sé vel treystandi til þess að leiða sveitarstjórn með okkar góða fólk í fjórum efstu sætunum.

Sem dæmi um áhrif sem Óslistinn er strax farinn að hafa í samfélaginu má nefna kosninga- „baráttu“ undanfarna vikna. Við á Óslistanum erum staðráðin í því að kosningabarátta eigi að vera jákvæður tími í samfélaginu. Við höfum lagt mikla áherslu á það að benda á allt það jákvæða sem við höfum og það sem þarf að vinna í  og bæta. Við höfum valið að fara þá leið að vera ekki að benda á það sem miður hefur farið á undanförnu kjörtímabili því það er fortíðin og við stefnum á framtíðina.

Einstaklingar sem veljast í sveitarstjórn eru þar í þjónustu fyrir sveitarfélagið sitt. Þeir verða að hlusta á raddir íbúana og vera tilbúnir til þess að koma til móts við ólíkar skoðanir. Þeir verða líka að vera auðmjúkir gagnvart einstaklingum og verkefnum, hafa þolinmæði til þess að vinna verkin til fullnustu og með sóma.

Ég  mun að sjálfsögðu setja x við Ó á kjördag og bið þig kæri kjósandi að gera slíkt hið sama, framtíðin er núna -Áfram Blönduós!

Anna Margret Sigurðardóttir
1. sæti Óslistanum

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga