Hornbjarg. Ljósm: is.wikipedia.org
Hornbjarg. Ljósm: is.wikipedia.org
Pistlar | 02. júní 2018 - kl. 08:25
Stökuspjall: Þá kemur gleðin eins og óvænt sending
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Að vitum mínum berðu barkarremmu
blóðbergsþef og lyngsins anganföng.
Ó, kveddu vorsins Vatnsdælingastemmu
verði drápan eilíflöng.

kvað Guðmundur Frímann, skáldið af stararengjum Langadalsins, málvinur Blöndu og Móbergstofu. Guðm. Frímann ávarpar vorið, rabbar við störina og fagnar gjöfum Jónsmessunnar:

Á slíkri nóttu vil eg heldur vaka
mót vorsins dýrðargjöfum aleinn taka
þá kemur gleðin eins og óvænt sending,
– eða vísuhending.

Skáldið yrkir lýsandi ljóð sem leitar til nágranna hans, Árna gersemi, fullu nafni hét hann Árni Frímann Árnason, lokaði á Bakkus miðaldra maður og flutti aftur heim í sveitina með brúði sína og son, en lést 1918 - fyrir einni öld og átti þá eftir þrjú ár í sextugt.

Er byggðin fyllist sorta langra síðsumarnótta,
og svefndrukkinn blærinn leikur fölnuð engin við,
þá kemur hann eftir veginum á klárnum ljósaskjótta,
með klyfjahest í taumi, að dalabænda sið.

Þessi aldni heiðabóndi, sem í stormum hefur staðið
og stritað og glímt hinar þyngstu þrautir við,
hann ríður á þessu kvöldi eins og höfðingi í hlaðið,
og hendir sér af baki – að óðalsbænda sið.

Annað merkisfjall, útvörðinn Hornbjarg gerði Þorsteinn Gíslason, ritstjóri menningarblaðsins Óðinn, að viðfangsefni sínu og samdi magnað kvæði um þennan 540 m háa klett:

Sólin rauð frá hafsbrún horfði,
hljóður hvíldi sær.
Flagg að hún á fleyi steig,
er færðist bjargi nær.
Hér var ei að koma' að koti.
Kóngi heilsað var með skoti.
Brátt til svara bumbur allar
buldu' í hvelfing hallar.

Hið þriðja fjall til að staldra við á þessu vori er inn af Ströndum og Hrútafirði, Tröllakirkja gnæfir vestur af Holtavörðuheiði. Þar eru líka kölluð Snjófjöll.

Sveitirnar við Hrútafjörð eiga mikla sögu: Á síðustu öld sameinuðu Strandamenn og Húnvetningar krafta sína við byggingu Reykjaskóla og nutu þá dugnaðar nýja prestsins á Prestbakka, sr. Jóns Guðnasonar sem kenndi við skólann, stjórnaði honum fyrstu misserin og sat í skólanefnd. Víðar gerði hann garðinn frægan og tók við störfum þjóðskjalavarðar þegar hann flutti úr suður yfir heiðina 1948.

Bræðurnir og prestarnir sr. Jón á Bakka og sr. Einar Guðnason í Reykholti fæddust á Óspaksstöðum í Hrútafirði en Jón hóf prestsþjónustu sína meðal Dalamanna og kom þaðan að Prestbakka. Þessum brautryðjanda í skólamálum við Húnaflóa lýsir Erlendur Jónsson í bók sinni, Að kvöldi dags:„Fáar sögur fóru af prestskap séra Jóns. Ef til vill var hann driftarmaður meiri en kennimaður. Hann var hið besta ritfær, gerðist höfundur mikils háttar mannfræðirita, fjölfróður og afkastamikill fræðimaður."

Sumarmessan í ár verður í Prestbakkakirkju sunnud. 19. ágúst en Ingimar Halldórsson heldur uppi merki kvæðamanna og kveður m. a. vísur Jóns S. Bergmann og kastljósi verður beint að sr. Jóni á Prestbakka.

Vísað er til:
Drukkinn bóndi úr Skyttudal: http://stikill.123.is/blog/record/533462/
Á Jónsmessunótt: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?U=g0&ID=4542
Hornbjarg: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?U=z2&ID=972
Sr. Jón Guðnason Prestbakka: http://stikill.123.is/blog/2017/09/12/769548/
Prestbakki: https://www.nat.is/Kirkjur/Kirkjur%20VF%20prestbakkakirkja1.htm
Sumarmessa 2016: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13102
Sumarmessa 2017: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=14000

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga