Fréttir | 15. júní 2018 - kl. 13:35
Fjörið heldur áfram - líflegt í Húnaþingi

Mikið hefur verið um að vera á Blönduósi síðustu vikur og fjörið heldur áfram um helgina og lengur. Stórviðburðir á við Prjónagleðina, Sumarsýningu Heimilisiðnaðarsafnsins, fyrstu skóflustunguna að gagnaver og Landsmót STÍ á skotsvæði Markviss hafa farið fram undanfarnar daga og vikur og framundan eru Smábæjarleikarnir í fótbolta, stórmót húnvetnskra hestamanna, kvennareið og hátíðarhöld í tilefni þjóðhátíðardagsins. Þá má geta þess að Harmonikkuhátíð verður haldin á Laugarbakka um helgina.

Prjónagleðin var haldin í þriðja sinn um síðustu helgi og heppnaðist frábærlega. Góður rómur var gerður að hátíðinni sem er mikið hrós fyrir forsvarsmenn og skipuleggjendur hennar og góð hvatning fyrir næstu gleði að ári. Fjölmenni mætti á opnun Sumarsýningar Heimilisiðnaðarsafnsins – Foldarskart þann 2. júní síðastliðinn. Sumarsýningarnar hafa skapað sér fastan sess og markað Heimilisiðnaðarsafninu sérstöðu meðal annarra safna. Safnið er einstakt í heiminum sem Húnvetningar ættu að hlúa vel að.

Íbúatala Blönduósbæjar nær tvöfaldast um helgina þegar um 700 þátttakendur og aðstandendur þeirra mæta á Smábæjarleikana í fótbolta. Þetta er í fimmtánda sinn sem leikarnir eru haldnir og er ávallt líf og fjör í kringum þá. Um 70-80 sjálfboðaliðar taka þátt í að gera leikana sem glæsilegasta.

​Hin árlega kvennareið í Austur-Húnavatnssýslu fer fram laugardaginn 23. júní og er indíána þema að þessu sinni. Riðið verður meðfram Vatnsdalsánni sem rennur um einn fallegasta dal landsins. Og meira af hestum því stórmót húnvetnskra hestamanna fer fram á laugardaginn en um er að ræða sameiginlegt gæðingamót og úrtökumót fyrir hestamannafélögin Neista, Þyt og Snarfara fyrir Landsmótið 2018.

Allir Húnvetningar eru hvattir til að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni af þjóðhátíðardeginum á sunnudaginn. Hátíðarhöld verða bæði á Hvammstanga og Blönduósi.

Gerum Húnaþing líflegt og skemmtilegt, tökum þátt í því sem verið er að gera og verið er að bjóða uppá. Ekki sitja heima – tökum þátt.

Tengdar fréttir:

Smábæjarleikarnir eru um helgina

Prjónagleðin fékk hrós og hvatningu

Harmonikkuhátíð á Laugarbakka

Hátíðardagskrá á Hvammstanga

Hátíðardagskrá á Blönduósi

Stórmót húnvetnskra hestamanna

​Hin árlega kvennareið

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga