Skjáskot af Morgunblaðinu 10. júlí 2018 sem sýnir kort Þjóðskjalasafnsins af Bjarnastaðaskriðunni 1720 og endurgerð kortsins 1721.
Skjáskot af Morgunblaðinu 10. júlí 2018 sem sýnir kort Þjóðskjalasafnsins af Bjarnastaðaskriðunni 1720 og endurgerð kortsins 1721.
Fréttir | 10. júlí 2018 - kl. 14:05
Bjarnastaðaskriðan rifjuð upp

Í Morgunblaðinu í dag er Bjarnastaðaskriðan, mannskæð skriða sem fékk úr Vatnsdalsfjalli í október árið 1720, rifjuð upp og er það gert í tengslum við skriðuna miklu sem féll úr Fagraskógarfjalli í Hítardal árla morguns laugardaginn 7. júlí síðastliðinn. Aðstæður eftir skriðuna í Hútardal þykja svipaðar og í Vatnsdal árið 1720-1721. Í samantekt skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Forn skriðuföll á Norðurlandi kemur fram að 5-7 hafi farist þegar Bjarnastaðir fóru undir skriðuna, eftir því hver heimildin er, og allmargt fé, kýr og hestar. Skriðan fór yfir dalinn og upp í hlíð hinum megin.

Í Morgunblaðinu er birt mynd af korti frá 1721 í eigu Þjóðskjalasafnsins sem sýnir landslagið í Vatnsdal fyrir og eftir Bjarnastaðaskriðuna en hún var aðeins minni að flatarmálin en skriðan sem féll í Hítardal. Bjarnastaðaskriðan stíflaði Vatnsdalsá og myndaði stöðuvatnið Flóðið.

Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að skrifuð hafi verið skýrsla og gert kort sem sent var til Danmerkur. Upprunalega kortið varð fyrir vatnsskemmdum en danskur kortagerðarmaður teiknaði það upp aftur. Ingibjörg segir að kortið sé líklega eitt fyrsta kortið sem sýni náttúrhamfarir hér á landi og ótrúlega nákvæmt miðað við mælitæki þeirra daga. Það sýni staðsetningu bæjanna og hvar skriðan fór yfir. Merkilegast sé þó að kortið sýni landslagið fyrir og eftir skriðuna.

Meðfylgjandi er ein lýsing á því sem gerðist í Vatnsdal í október 1720 og er hún úr skýrslunni Forn skriðuföll á Norðurlandi eftir Halldór G. Pétursson og Höskuld Búa Jónsson sem unnin var fyrir Ofanflóðasjóð (Akureyri, desember 2001):

Bjarnastaðir: …Það bar nóttina milli 10. og 11. okt. (1720), hálfum mánuði fyrir vetur, að grjótskriða ógurleg hljóp úr fjalli uppundan Bjarnastöðum í Vatnsdal. Mátti svo að kveða að springi fram öll fjallshlíðin,, sem sjá má merki til. Tók hún bæinn allan og mestan eða allan hluta lands jarðarinnar, með 7 mönnum. Var þar með bóndinn, er Þorkell er nefndur og kona hans með 5 öðrum. Hún tók og hross og sauðfé er nærri var bænum og svo naut (þ.e. kýr). Hún stíflaði og Vatnsdalsá og fyllti farveg hennar grjóti og jarðbrotum, og vestanvert við ána eru grjóthaugar miklir, er mælt að séu leifar skriðunnar og kallast Vatnsdalshólar, er meiri eru líkindi þess, að leifar séum þeir annarar eldi skriðu, all–ógurlegrar og finnst í Árbók að fallið hafi 1545, eru hólar þeir svo margir og þétt saman, að trautt eða ekki má telja. Eftir það rann áin í flóa að ofan, en er nú stöðuvatn, síðan hún náði aftur farveg gegnum skriðuna, þar heita Skriðuvöð, og reyndu menn til að grafa hann. Þó mun vatnið, Vatnsdalsflóð eða Flóðið,sem kallað er vera miklu minna nú. Er það nú á dögum smámsaman að grynnast, að því er kunnugir menn segja, svo hólmar og sandeyrar koma upp úr því. Náði skriðan allt suður til Másstaða og tók þar nokkuð af velli, en út frá bænum spillti hún mjög. Varð af skriðu þessari og uppstíflan árinnar skaði mikill í dalnum báðum megin, allt fram að Hvammi og Kornsá, að þær færðust mjög úr vanaleigu, svo byggðar yrðu. Voru það sumir ábúendur þeirra, er vildu segja þeim lausum (Úr Húnvetningasögu Gísla Konráðssonar, Rósberg G. Snædal, Hrakfallabálkur, 1969).

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga