Fréttir | 10. júlí 2018 - kl. 16:03
Eldur í Húnaþingi 2018

Hin árlega hátíð Eldur í Húnaþingi verður haldin í 16. sinn dagana 25.–29. júlí næstkomandi. Dagskráin er sneisafull af fjölskylduatburðum, tónlist, sviðslistum, fyrirlestrum, íþróttaviðburðum og leikjum sem allir geta tekið þátt í.

Meðal þess helsta sem er í boði í ár eru:

Moses Hightower, Paparnir, Ásgeir Trausti, Ylja, og hinir margverðlaunuðu búksláttarmenn Body Rythym Factory ásamt leikverkinu Tatterdamalion – báðir þessir erlendu atburðir eru fjölskylduvænir. Hinn árvissi atburður þar sem heimamenn koma fram, Mello Musika, er á sínum stað; sápurennibraut, brunaslöngufótbolti, og fjölskyldudagurinn eru líka í boði í ár.  Sverrir Bergmann og Halldór Gunnar spila í Borgarvirki.

Alla dagskrána má sjá hér.

Greta Clough, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, segir hátíðina vera einstak sem fangar og endurspeglar hvað það er sem skapar samfélagið í Húnaþingi vestra. "Í ár bryddum við upp á nýjungum í dagskránni sem endurspegla sögu Eldsins á sama tíma og við horfum fram veginn og fögnum þeim tækifærum sem svæðið, hátíðin, og samfélagið okkar sem verður stöðugt fjölbreyttara hefur upp á að bjóða.  Það er okkur mikil ánægja að kynna fyrir ykkur þessa fjölbreyttu dagskrá og vonum að allir finni eitthvað sem vekur áhuga þeirra, og jafnvel eitthvað nýtt að prófa," segir Greta Clough.

80% atburða á Eldi í Húnaþingi eru ókeypis fyrir gesti. Til að skrá sig á námskeið og sérstaka viðburði skal senda tölvupóst á eldur@eldurihun.is.

Forsala á atburði sem selt er inn á er hafin og hægt er að kaupa miða á heimasíðu hátíðarinnar eldurihun.is með millifærslu eða netgreiðslu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga