Fimmtudagurinn
Fimmtudagurinn
Föstudagurinn
Föstudagurinn
Laugardagurinn
Laugardagurinn
Sunnudagurinn
Sunnudagurinn
Fréttir | 11. júlí 2018 - kl. 10:41
Húnavakan nálgast

Rúm vika er í að bæjarhátíðin og fjölskylduskemmtunin Húnavaka hefjist á Blönduósi en hún er haldin dagana 20.-22. júlí næstkomandi. Dagskráin er fjölbreytt að vanda og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Fimmtudaginn 19. júlí ætla Blönduósingar í þéttbýli og dreifbýli að skreyta hús sín hátt og lágt og er rauður litur og ísbjarnarmerki sameiginlegt þema hjá öllum. Verðlaun verða veitt fyrir best skreytta húsið.

Föstudagurinn
Stóri fyrirtækjadagurinn verður á sínum stað á föstudeginum en þá er opið hús og Húnavökutilboð hjá fyrirtækjum á Blönduósi. Átak, Ísgel, N1 píparinn og Ístex taka á móti gestum og bjóða upp á grill, gos, hoppukastala og fleira að Efstubraut 2 frá klukkan 12-16. Fisk á Disk, Samkaup, Trésmiðjan Stígandi, Lífland, Hitt og þetta Handverk, SAH-Afurðir, Vilko og Tengill taka á móti Húnavökugestum á föstudeginum, kynna vörur sínar, sýna húsakynni og bjóða ýmis tilboð.

Risa kótelettukvöld og kvöldskemmtun verður í Félagsheimilinu á Blönduósi að kvöldi föstudagsins frá klukkan 18:30-20:45. Veislustjóri er hinn landskunni Gísli Einarsson og Lalli töframaður skemmtir. Húsið opnar klukkan 18:30 og hefst borðhald 19:00. Aðgangseyrir er kr. 3.900 fyrir fullorðna, kr. 1.500 fyrir 12 ára og yngri. Pantanir þurfa að berast í síðasta lagi klukkan 16:00 fimmtudaginn 19. júlí á netfangið info@bogs.is eða í síma 898-4685. Forsala er í B&S Restaurant miðvikudaginn 18. júlí og fimmtudaginn 19. júlí frá klukkan 14-16.

Frá klukkan 21-22 verður fjölskyldudansleikur með Stuðlabandinu í Félagsheimilinu og frá klukkan 23-03 verður stórdansleikur með sömu hljómsveit á sama stað. Aldurstakmark á stórdansleikinn er 16 ára og miðaverð er kr. 3.500.

Laugardagurinn
Laugardagurinn á Húnavöku er nokkuð hefðbundinn. Flugklúbbur Blönduóss býður upp á útsýnisflug ef veður og aðstæður leyfa frá klukkan 9-17 og er verð fyrir sætið kr. 3.000. Æskilegt er að þrír bóki sig saman en það er ekki skylda. Ef veður verður betra á sunnudeginum verður flugið fært yfir á þann dag. Upplýsingar og pantanir eru hjá Kristmundi í síma 856-1106.

Opna Gámaþjónustumótið í golfi fer fram á Vatnahverfisvelli frá klukkan 9 og er skráning á golf.is. Hestaleigan Galsi, Heimilisiðnaðarsafnið, Textílsetrið, Minjastofa Kvennaskólans og Vatnsdæla á Refla verða opin alla Húnavöku helgina. Í Heimilisiðnaðarsafninu er sérsýningin Foldarskart eftir Louise Harris. Bókamarkaður verður í Héraðsbókasafninu á laugardaginn.

Söngprufur fyrir Míkróhúninn fara fram klukkan 11 þennan dag og eru flokkarnir 10 ára og yngri og 11-16 ára. Skráning er á staðnum og þurfa þátttakendur að koma með undirspil sjálfir. Blönduhlaup USAH hefst einnig klukkan 11 og er skráning á staðnum frá klukkan 10 í anddyri Félagsheimilisins.

Skotfélagið Markviss verður með opinn dag á skotsvæði félagsins. Gestum og gangandi gefst tækifæri að kynnast starfsemi félagsins á einu flottasta skotsvæði landsins og reyna sig við leirdúfur og skotmörk. Sérstakur gestur verður Indriði Ragnar Grétarsson formaður Bogveiðifélags Íslands. Klukkan 16 fer fram Höskuldsmótið á skotsvæðinu og er það opið öllum. Skráning á staðnum.

Fjör við Félagsheimilið stendur frá klukkan 14-16 en þar verður markaðsstemning, Lalli töframaður skemmtir, Míkróhúnninn, hoppukastalar, BMX brós, fígúrur úr Hvolpasveitinni mæta á svæðið, Ferðaklúbbur 4x4 Húnvetningadeild sýnir tæki sín og tól, Smaladrengirnir taka rúnt og sýna mótorhjólin sín og Hestaleigan Galsi býður börnum að fara á hestbak. Pálmi Ragnarsson tekur tvö lög, en hann keppti í söngkeppni Samfés í vetur og stóð sig með prýði.

Eyþór Franzon Wechner organisti Blönduóskirkju verður með tónleika í kirkjunni klukkan 16. Hann ætlar að leika afar fjölbreytt prógramm þar sem söngleikja- og kvikmyndatónlist fær að hljóma ásamt hefðbundnum orgelverkum. Aðgangseyrir er kr. 2.000 fyrir 18 ára og eldri.  

Kvöldvakan með varðeldi í Fagrahvammi er á sínum stað og hefst hún klukkan 20:30. Lalli töframaður skemmtir, sigurvegarar í Míkróhúninum taka lagið, umhverfisverlaun Blönduósbæjar verða afhent sem og verðlaun fyrir best skreytta húsið, Karitas Harpa söngkona tekur nokkur lög og Sverrir Bergmann og Halldór Fjallabróðir stýra brekkusöng. Laugardagurinn endar svo á stórdansleik í Félagsheimilinu með hljómsveitinni Albatross. Aldurstakmar er 18 ár og aðgangseyrir kr. 3.500.

Sunnudagurinn
Leikhópurinn Lotta mætir á svæðið með sumarsýninguna sína Gosi og verður leikritið sýnt klukkan 11 á Þríhyrnu sem er á milli Árbrautar og Húnabrautar, oft nefnt Káratún. Frítt inn fyrir alla en N1 styrkir sýninguna.

Hin árlega Prjónaganga á Húnavöku verður farin klukkan 12 á hádegi en hún er haldin á vegum Textílsetursins. Lagt verður af stað frá Hótel Blöndu og gengið sem leið liggur út fyrir á og að Kvennaskólanum. Prjónagraffið verður skoðað á leiðinni.

Klukkan 13 verður athöfn í kirkjugarðinum á Blönduósi. Afhjúpað verður upplýsingaskilti um sögu garðsins frá þeim tíma sem hann var á Hjaltabakka og nýr garður tekinn í notkun á Blönduósi, þar sem hann hefur verið síðan. Jón Torfason sagnfræðingur frá Torfalæk mun rifja upp söguna og útskýra það sem á skiltinu stendur. Allir eru velkomnir.

Hér hefur það helsta verið nefnt en dagskráin er viðameiri og fjölbreyttari og eru allir áhugasamir hvattir til þess að kynna sér hana vel.

Húnavakan á Blönduósi er á Facebook.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga