Borðeyri. Ljósm: hunathing.is
Borðeyri. Ljósm: hunathing.is
Fréttir | 11. júlí 2018 - kl. 14:06
Sjóða þarf neysluvatn á Borðeyri

Íbúar og ferðamenn á Borðeyri við Hrútafjörð hafa þurft að sjóða allt neysluvatn síðan í byrjun júní, að því er fram kemur í fréttum Ríkisútvarpsins í gær. Yfirborðsvatn blandaðist neysluvatni í leysingum í vor og mælast saurgerlar, eða e.coli- og kólígerlar, í vatninu. Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra segir að allt kapp sé lagt á að koma vatnsmálunum í samt horf.

Í frétt Ríkisútvarpsins segir að vatnsveitukerfið á Borðeyri hafi verið endurnýjað árið 2010 og ekki hafi verið vandræði með neysluvatn síðan þá. Þann 4. júní síðastliðinn barst svo kvörtun því að óvenjulegur litur var á vatninu. Næsta dag var sýni tekið og leiddu niðurstöður í ljós að það væri ekki drykkjarhæft. „Málið var tekið mjög alvarlega og strax farið í lagfæringar. Við fundum stað þar sem talið var að yfirborðsvatnið hafi blandast neysluvatninu,“ segir Guðný Hrund í samtali við Ríkisútvarpið.

Fólk var þó beðið að sjóða allt neysluvatn þar til sýni yrði tekið næst. Nú er komið í ljós að enn eru kólígerlar í vatninu. Guðný Hrund segir því ljóst að yfirborðsvatn hafi komist í neysluvatnið víðar en talið hafi verið fyrr í sumar. Reynt sé að komast sem fyrst fyrir vandræðin en þangað til þurfi fólk að sjóða allt neysluvatn.

Sjá frétt Ríkisútvarpsins hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga