Fréttir | 21. júlí 2018 - kl. 10:20
Húnavakan fer vel af stað

Húnavökuhátíðin á Blönduósi fer vel af stað þó svo að rignt hafi hressilega síðdegis í gær. Veðrið í dag er fínt, hægur andvari og ágætis hiti og er vonandi að sólin láti sjá sig þegar líður á daginn. Stóri fyrirtækjadagurinn var haldinn í gær en þá kynntu fyrirtæki, söfn og setur, starfsemi sína fyrir Húnavökugestum. Um 220 manns mættu á Risa kótelettukvöld og kvöldskemmtun í Félagsheimilinu í gærkvöldi og skemmtu sér frábærlega. Þá vann Kormákur/Hvöt stórsigur á Vatnaliljunum í gærkvöldi á Blönduósvelli 6-1. Mikið verður um að vera í Blönduósbæ í allan dag.

Dagurinn í dag á Húnavöku er nokkuð hefðbundinn. Flugklúbbur Blönduóss býður upp á útsýnisflug frá klukkan 9-17 og er verð fyrir sætið kr. 3.000. Æskilegt er að þrír bóki sig saman en það er ekki skylda. Upplýsingar og pantanir eru hjá Kristmundi í síma 856-1106.

Opna Gámaþjónustumótið í golfi fer fram á Vatnahverfisvelli og hófst það klukkan 9. Hestaleigan Galsi, Heimilisiðnaðarsafnið, Textílsetrið, Minjastofa Kvennaskólans og Vatnsdæla á Refla verða opin alla Húnavöku helgina. Í Heimilisiðnaðarsafninu er sérsýningin Foldarskart eftir Louise Harris. Bókamarkaður verður í Héraðsbókasafninu á laugardaginn.

Söngprufur fyrir Míkróhúninn fara fram klukkan 11 og eru flokkarnir 10 ára og yngri og 11-16 ára. Skráning er á staðnum og þurfa þátttakendur að koma með undirspil sjálfir. Blönduhlaup USAH hefst einnig klukkan 11.

Skotfélagið Markviss verður með opinn dag á skotsvæði félagsins. Gestum og gangandi gefst tækifæri að kynnast starfsemi félagsins á einu flottasta skotsvæði landsins og reyna sig við leirdúfur og skotmörk. Sérstakur gestur verður Indriði Ragnar Grétarsson formaður Bogveiðifélags Íslands. Klukkan 16 fer fram Höskuldsmótið á skotsvæðinu og er það opið öllum. Skráning á staðnum.

Fjör við Félagsheimilið stendur frá klukkan 14-16 en þar verður markaðsstemning, Lalli töframaður skemmtir, Míkróhúnninn, hoppukastalar, BMX brós, fígúrur úr Hvolpasveitinni mæta á svæðið, Ferðaklúbbur 4x4 Húnvetningadeild sýnir tæki sín og tól, Smaladrengirnir taka rúnt og sýna mótorhjólin sín og Hestaleigan Galsi býður börnum að fara á hestbak. Pálmi Ragnarsson tekur tvö lög, en hann keppti í söngkeppni Samfés í vetur og stóð sig með prýði.

Eyþór Franzon Wechner organisti Blönduóskirkju verður með tónleika í kirkjunni klukkan 16. Hann ætlar að leika afar fjölbreytt prógramm þar sem söngleikja- og kvikmyndatónlist fær að hljóma ásamt hefðbundnum orgelverkum. Aðgangseyrir er kr. 2.000 fyrir 18 ára og eldri.  

Kvöldvakan með varðeldi í Fagrahvammi er á sínum stað og hefst hún klukkan 20:30. Lalli töframaður skemmtir, sigurvegarar í Míkróhúninum taka lagið, umhverfisverlaun Blönduósbæjar verða afhent sem og verðlaun fyrir best skreytta húsið, Karitas Harpa söngkona tekur nokkur lög og Sverrir Bergmann og Halldór Fjallabróðir stýra brekkusöng. Dagurinn endar svo á stórdansleik í Félagsheimilinu með hljómsveitinni Albatross. Aldurstakmar er 18 ár og aðgangseyrir kr. 3.500.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga