Pistlar | 02. ágúst 2018 - kl. 14:56
Bæn fyrir fólki á ferðalögum
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Þar sem framundan er líklega ein mesta ferðahelgi ársins býð ég ykkur að taka undir eftirfarandi bæn með mér ef þið finnið ykkur í því.

Bæn

Umhyggjusami og umvefjandi Guð, frelsari og eilífi lífgjafi!

Blessaðu öll þau sem ferðast um landið okkar um þessa helgi og í sumar. Gef að þau fái notið náttúrunnar, hins óviðjafnanlega landslags, fegurðar sköpunar þinnar. Forðaðu þeim sem ferðast um landið okkar frá öllu illu, hættum, slysum og tjóni. Hjálpaðu okkur að reynast góðir gestgjafar og minntu ferðamennina og okkur öll á að sýna ábyrgð og tillitssemi og leið þau og okkur heil heim með dýrmætar minningar í farteskinu.

Blessaðu einnig þau sem ferðast til fjarlægra landa. Forðaðu þeim einnig frá slysum, hættum og öllu illu. Frá hverskyns háska eða tjóni. Gefðu að ferðalagið gangi vel og samkvæmt áætlun. Gef að við fáum að upplifa eitthvað nýtt og spennandi og getum um leið notið áningar og friðar með góðum ferðafélögum og í þakklæti til þín sem skapar, græðir, nærir og gefur líf. Í þakklæti til þín sem vilt að við njótum þess besta sem þú hefur skapað og gefið og lífið hefur upp á að bjóða. 

Hjálpaðu okkur öllum að minnast ábyrgðar okkar gagnvart náunganum og náttúrunni hvar sem við erum og hvert sem við förum. Minntu okkur á sýna aðgát og tillitssemi í umferðinni og í samskiptum öllum. Vera umburðarlynd og kurteis og sýna þeim virðingu sem á vegi okkar verða og veita þeim aðstoð og stuðning sem á þurfa að halda.

Gefðu að ferðin og fríið verði skemmtilegt og skilji eftir bjartar og góðar minningar. Hjálpaðu okkur að njóta eðlilegra samvista í faðmi fjölskyldu, vina eða kunningja og gef við eignumst jafnvel nýja kunningja og vini. Hjálpaðu okkur að hafa augun opin fyrir eigin velferð og náungans og koma þeim til hjálpar sem hjálpar er þurfi. Leiddu okkur svo öll heil og sæl heim að nýju.

Þess biðjum við þig, náðugi og miskunnsami Guð. Þig sem ert höfundur lífsins og einn ert fær um að viðhalda því um eilífð.

Í Jesú nafni. Amen.

Friðarkveðja

Láttu friðinn úr hjarta þínu spretta sem ilmandi blóm svo hann verði að angan sem smýgur og fyllir loftið af kærleika.

Með friðar- og kærleikskveðju og blessunaróskum.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga