Holóttir vegir eru óþolandi.
Holóttir vegir eru óþolandi.
Fréttir | 06. ágúst 2018 - kl. 13:24
Engar úrbætur á veginum um Vatnsnes

Vegurinn um Vatnsnes í Húnaþingi vestra ratar reglulega í fjölmiðla fyrir það hvers slæmur hann er. Heimamenn hafa lengi kvartað yfir slæmu ástandi vegarins og kallað eftir endurbótum. Á Vatnsnesi Hvítserkur, einn vinsælasti ferðamannastaður landsins, en þangað koma um 150 þúsund manns á sumrin. Sveitarstjórnin í Húnaþingi vestra hefur í mörg ár reynt að þrýsta á stjórnvöld um úrbætur.

Fjallað var um veginn um Vatnsnes í Ríkisútvarpinu um helgina og er þar rætt við Ingveldi Ásu Konráðsdóttur, bónda á Vatnsnesi sem einnig er formaður byggðarráðs Húnaþings vestra. Hún segir veginn mjög slæman og að hann sé búinn að vera það í mörg ár. „…við sjáum ekki fram á að það sé að fara breytast,“ segir Ingveldur. „Og það fara bílar hér útaf mjög reglulega og heimamaður nýbúinn að velta út af því að hann missti bílinn í holu. Þetta er bara mjög slæmt.“

Íbúar á bæjum við Vatnsnes aka hann auðvitað mikið og fjöldi ferðamanna fer þarna um. Við veginn eru staðir til selaskoðunar, en langflestir keyra fyrir Vatnsnes til að skoða Hvítserk, sem er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Áætlað er að þangað komi um 150 þúsund manns yfir sumartímann og þetta fólk þarf allt að aka veg 711 fyrir Vatnsnes.

Einnig er rætt í frétt Ríkisútvarpsins við Sigurð Líndal Þórisson, formann Ferðamálafélags Vestur-Húnavatnssýslu en í upplýsingamiðstöðina á Hvammstanga koma erlendir ferðamenn til þess að spyrja hvort óhætt sé að fara á bíl að Hvítserk. „Það hefur þurft að vísa fólki frá ef það er á þannig bílum. Fólki finnst þetta náttúrulega ekki boðlegt. Það er einstaka manni sem finnst þetta vera einhverskonar ævintýri. En það eru margir sem hætta við og það eru margir sem segja farir sínar ekki sléttar eftir að hafa ekið þessa leið,“ segir Sigurður.

Sjá nánar á vef Ríkisútvarpsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga