Veitt í Svarthyl í Blöndu
Veitt í Svarthyl í Blöndu
Fréttir | 16. ágúst 2018 - kl. 12:11
Blanda komin á yfirfall

Samkvæmt vikulegum veiðitölum úr 75 aflahæstu laxveiðiám landsins sem birtar eru á vef Landssambands veiðifélaga hefur dregið verulega úr laxveiði í Blöndu. Skýringin er sú að áin er komin á yfirfall. Vel hefur rignt í sumar sem gerir það að verkum að Blöndulón er orðið fullt og seytlar nú fram yfir. Alls hafa 848 laxar veiðst í ánni í sumar en vikuveiðin 9.-15. ágúst var einungis 16 laxar. Á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 1.331 laxar í Blöndu og nemur samdrátturinn 36% milli ára.

Mest hefur veiðst í Miðfjarðará í sumar af húnvetnsku laxveiðiánum. Áin er komin í 1.863 laxa og var vikuveiðin 181 laxar. Á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 2.386 laxar og er veiðin sem af er sumri um 22% minni en í fyrra. Miðfjarðará er í fjórða sæti yfir aflahæstu ár landsins.

Laxá á Ásum er komin í 522 laxa, Víðidalsá í 375 laxa, Hrútafjarðará og Síká í 233 laxa og Svartá í 93 laxa. Ekki hafa verið birtar nýjar tölur úr Vatnsdalsá á vefnum angling.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga