Pistlar | 07. september 2018 - kl. 12:44
Á bak við kennitölu
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Gleymum því ekki að á bak við kennitölu býr manneskja sem kennir til. Jafnvel sært hjarta sem hefur orðið fyrir áfalli og vonbrigðum og finnur til. Manneskja af holdi og blóði sem vill ekki vera til vandræða eða ama en þráir virðingu og skilning, samstöðu og vellíðan, umhyggju og ást. 

Miskunna þú mér

Þess vegna fer ég með eftirfarandi bæn, í veikum mætti, kvölds og morgna, um miðjan dag og jafnvel nætur, leynt og ljóst, með titrandi hjarta, hvernig sem stendur á:
   Guð minn góður, þú sem ert kærleikurinn æðsti og mesti, faðir frelsarans, Jesú Krists, miskunna þú mér.
   Kristur Jesús, á krossinum  vertu mér syndugum náðugur og líknsamur.
Frelsari heimsins, miskunna þú mér. Líknaðu mér og læknaðu mig, í Jesú nafni.

   Greindu þarfir mínar og mættu þeim. Komdu mér til hjalpar. Yfirgefðu mig ekki á degi neyðarinnar þegar ég þarf mest á þér að halda. Hjálpaðu mér að sleppa ekki hendinni af þér sem ert upprisan og lífið sjálft. Ekki fyrr en þú blessar mig. Ekki fyrr en ég fæ að höndla lífið og snerta það. Fæ að samlagast því og fljúga með þér, frjáls sem friðarins engill inn í hinn eilífa ljóssins yl, um himinsins björtu borg. Ekki fyrr en ég fæ að þræða hin margrómuðu himnesku torg. Þar sem ástvinir mætast og fá að njóta þess saman að vera til.
   En ég bið þig, leyfðu mér þangað til að lifa í kærleika, friði og sátt við þig, sjálfan mig og alla menn. Gefðu að ég fái að vera farvegur kærleika þíns og friðar, fyrirgefningar og fagnaðarerindis, dag hvern uns yfir lýkur og jafnvel lengur svo ég fái borið þann ávöxt sem mér var ætlað. Verði þér til dýrðar, samferðafólki mínu og umhverfi til blessunar og sjálfum mér til heilla.
   Allt mitt og alla mína sem ég nefni nú á nafn ……. fel ég þér í trausti þess að þú munir vel fyrir sjá. Og gef að þín eilífa sýn og himneski friður fái hjörtu okkar og sál að snerta og fylla varanlegri fegurð svo hamingjan geti búið um sig og varað að eilífu.

   Dýrð sé þér, eini sanni Guð. Þér sem ert höfundur og fullkomnari lífsins, kærleikans og friðarins. Þér sem vilt okkur allt hið besta um aldir og að eilífu. Amen.

   Með kærleiks- og friðarkveðju.

   Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga