Fréttir | 20. september 2018 - kl. 09:01
Ámundakinn eignast allt húsið á Húnabraut 4

Síðastliðinn sunnudag var undirritaður samningur um kaup Ámundakinnar ehf. á eignum Búrfjalla ehf. á Húnabraut 4 á Blönduósi. Um er að ræða rúmlega 500 fermetra verslunar- og iðnaðarhús, auk tæplega 300 fermetra skemmu. Þá fylgir allstórt afgirt geymslusvæði og lóð.

Jóhannes Torfason, framkvæmdastjóri Ámundakinnar, segir að markmiðið með kaupunum sé að greiða fyrir og vinna að því að myndast geti heilstætt verslunar- og þjónustusvæði á lóðinni, jafnvel einskonar “mini-moll“ áður en langt um líður.

„Viðræður er hafnar við aðila sem sýnt hafa þessu svæði áhuga og vonast félagið til að á næstunni komi niðurstöður þeirra í ljós,“ segir Jóhannes og auglýsir hann hér með eftir fleiri aðilum sem áhuga hafa á að finna sínum rekstri þarna samastað eða stofna til nýs rekstrar. Jóhannes mun veita allar nánari upplýsingar þar að lútandi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga