Frá fundinum í Miðgarði. Ljósm: ssnv.is.
Frá fundinum í Miðgarði. Ljósm: ssnv.is.
Fréttir | 10. október 2018 - kl. 09:22
Samráðsvettvangur SSNV fundaði í Miðgarði

Árlegur fundur Samráðsvettvangs Sóknaráætlunar Norðurlands vestra var haldinn í Miðgarði í síðustu viku. Á fundinum kynnti Snorri Björn Sigurðsson frá Byggðastofnun þingsályktun um Byggðaáætlun 2018-2024, sem samþykkt var á Alþingi 11. júní síðastliðinn. Í henni eru sett fram markmið, áherslur og mælikvarðar ríkisvaldsins fyrir þessi ár, m.a. að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land.

Þá var farið yfir framkvæmd Sóknaráætlunar Norðurlands vestra síðastliðið ár, m.a. styrkveitingar úr Uppbyggingarsjóði og kynnt svokölluð áhersluverkefni 2018-2019 sem snúa að fjölmörgum þáttum í ferðaþjónustu, innviðagreiningu, orku- og umhverfismálum.

Á vef SSNV kemur fram að núverandi samningur við ríkisvaldið um Sóknaráætlun Norðurlands vestra renni út í lok 2019. Því megi gera ráð fyrir að viðræður um nýjan samning hefjist fyrri hluta næsta árs.  Fóru fulltrúar í Samráðsvettvanginum því yfir núverandi samning til að greina hvað væri í lagi og hvað megi betur fara. Öll sveitarfélög á svæðinu eiga fulltrúa í Samráðsvettvanginum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga