Fréttir | 12. október 2018 - kl. 07:21
Hrútadagur í Miðfirði

Lambhrútasýning 2018 fyrir Miðfjarðarhóf verður haldin á Bergsstöðum í kvöld klukkan 20. Keppt verður í þremur flokkum lambhrúta; hvítir hyrndir, mislitir og kollóttir. Að auki verða tveir hópar fyrir gimbrar; mislitar gimbrar, sem verða verðlaunaðar eftir átaki og skrautgimbrar þar sem einungis verður horft til litar eða sérstöðu. Hverjum bæ er heimilt að mæta til leiks með þrjá gripi í hvern flokk, og sama gimbrin má ekki taka þátt í báðum flokkum.

Ef bændur eiga aðra vel stigaða hrúta sem þeir hyggjast ekki setja á sjálfir og vilja bjóða til sölu er heimilt að mæta með fleiri en þrjá hrúta, en einungis þrír hrútar taka þátt í keppninni.

Lambhrútar þurfa að hafa hlotið að lágmarki 83 stig til þess að vera gjaldgengir. Ekki verður stigað á staðnum, heldur dagsformið látið gilda. Þannig getur hrútur sem stigast hefur upp á 86 stig endað ofar en hrútur sem hlotið hefur dóm upp á 87 stig. Gimbrar þurfa hins vegar ekki að vera stigaðar.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga