Vatnsdalshólar. Ljóms: efla.is.
Vatnsdalshólar. Ljóms: efla.is.
Fréttir | 16. október 2018 - kl. 11:36
Skátar töldu Vatnsdalshóla árið 1960

Það hafa fleiri en verkfræðistofan Efla og Finna Birna Steinsson reynt að telja Vatnsdalshóla, sem hafa reyndar verið álitnir óteljandi. Í byrjun júlí árið 1960 héldu húnvetnskir skátar skátamót fyrir Norðlendinga við Vatnsdalshóla. Um 120 skátar, stúlkur og drengir frá fimm félögum tóku þátt í mótinu. Einkunnarorð mótsins voru: „Það er ekkert ómögulegt. Það sem er erfitt, gerum við strax, en það sem er ómögulegt tekur aðeins lengri tíma.“ Eitt af verkefnum skátanna var að kortleggja og telja Vatnsdalshóla.

Sagt var frá niðurstöðunni í frétt um mótið í Morgunblaðinu 8. júlí 1960 og þar segir: „Þessir óteljandi hólar virtust nú aðeins vera (því sem næst) 1120“.

Í frétt Morgunblaðsins kemur meðal annars fram að tjaldbúðirnar á skátamótinu hafi staðið á grundinni sunnan við Þórdísarlund og rann Þórdísarlækurinn í gegnum miðja tjaldborgina. Bjuggu stúlkurnar sunnan megin lækjarins en drengir að norðan verður. Mótið var sett klukkan 8 eftir hádegi föstudaginn 1. júlí með hátíðlegri athöfn. Komu þá fram skátar í gervi Ingimundar gamla og Þórdísar dóttur hans og fluttu nokkur hvatningaorð til skátanna.

Eins og fram hefur komið í fréttum er verkfræðistofan Efla að freista þess að telja Vatnsdalshólana með hjálp nýjustu tækni og vísinda. Niðurstöður talningarinnar, byggðar á ákveðnum forsendum, verða gefnar upp í Landanum á Ríkissjónvarpinu sunnudaginn 21. október næstkomandi. Spennandi verður að vita hvort Efla komist að sömu niðurstöðu og skátarnir.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga