Pistlar | 02. nóvember 2018 - kl. 11:57
Hvers vegna?
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Hefurðu spáð í það að Jesús Kristur afmáði dauðann og innleiddi óslökkvandi ljós og eilíft líf með upprisu sinni frá dauðum?

Ég er einmitt alltaf að reyna að ná þessu og tileinka mér þetta því að mér finnst þetta virkilega athyglisvert og spennandi og hreinlega verulega mikið til koma.

Hvers vegna haldið þið annars að fólk sé enn að tala um þennan Jesú Krist 2000 árum eftir að hann var uppi? Og hvers vegna ætli það sé að kirkjan heldur velli eftir allan þennan tíma? Þá er ég ekki að tala um einstakar kirkjudeildir heldur almennt. Haldið þið að það sé vegna þess að vígðir þjónar kirkjunnar eða kirkjunnar fólk almennt geri aldrei mistök og viti alltaf allt best? Haldið þið að það sé vegna þess að þetta fólk hafi í gegnum tíðina verið svo miklir yfirburða andlegir snillingar sem hefa svör við öllum spurningum og sé því vel til þess fallið að eiga síðasta orðið í öllum samskiptum eða málum sem upp kunna að koma?

Nei, það er að sjálfsögðu ekki þess vegna. Jafnvel ekki þrátt fyrir alla trúu og góðu þjónana sem hugsanlega gjalda þess sem aðrir kirkjunnar þjónar hafa brotið af sér með einum eða öðrum hætti í gegnum aldirnar eða gert einhvers konar mistök sem við jú öll gerum á einhverjum tímapunkti á ævinnar göngu.

Kirkjan lifir og fólk er enn að tala um og leita eftir handleiðslu, stuðningi og styrk frá Jesú Kristi. Það er vegna þess að hann lifir enn í dag og vegna þess að hinn heilagi andi hans andar á þá daglega ferskum andblæ lífsins vonar sem þiggja vilja og þrá að fá að hvíla í. 

Við erum að tala um anda upprisu lífsins sem megnar að græða sár, uppörva skaddaðar sálir sem orðið hafa fyrir vonbrigðum, misrétti, kúgun eða hvers konar ofbeldi eða mismunun. Andann sem veitir hjörtunum huggun og eilífan frið. Andann sem stendur með þeim sem hallað er á. Andann sem reisir upp og fyrirgefur og gott er að hvíla í hvernig sem allt velkist í henni veröld.

Ást Guðs

Ást Guðs er nefnilega eins og galdur sem við skiljum ekki en getum upplifað, fáum að meðtaka ef við viljum og megum hvíla í og njóta hvernig sem stendur á. Og það sem er svo óendanlega þakkarvert og dýrðlegt að okkur býðst að vera farvegur þessarar ástar Guðs í umhverfi okkar dag hvern, jafnvel þótt við séum bara eins og við erum.

Því er svo nauðsynlegt að staldra reglulega við og horfa inn á við. Rækta sjálfan sig, hugleiða Guðs orð, áætlanir og vilja, veru okkar hér og tilgang. Hvaðan við komum, hver við erum, hvert við raunverulega viljum stefna og vera á bæn fyrir sjálfum okkur, okkar dýrmæta umhverfi, náttúru, möguleikum og gjöfum hennar og fyrir ásvinum okkar og samferðafólki yfirleitt. Okkar daglegu þörfum, áætlunum, draumum og þrám og því sem á hugann kann að leita hverju sinni og á hjarta okkar er lagt.

Með kærleiks- og friðarkveðju í fullvissu þess að höfundur og fullkomnari lífsins, kærleikans og friðarins muni vel fyrir sjá og leiða okkur inn til dýrðarinnar þegar yfir lýkur.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga