Jón Árnason. Ljósm: Wikipedia
Jón Árnason. Ljósm: Wikipedia
Pistlar | 16. nóvember 2018 - kl. 14:03
Stökuspjall: Römm er sú taug er rekka dregur...
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Rúm 40 ár stóð Bessastaðaskóli, árin 1805-1846. Skólanum tengjast nöfn ýmis nöfn skálda og rithöfunda sem eru okkur enn ofarlega í huga eftir 200 ár. Jónas skal fyrstan nefna, dreng dala, kom norðan úr Öxnadal, var farinn að setja saman stökur þegar hann kom til skólans 1823. Um systur sína orti JH:

Einatt hefur hún sagt mér sögu;
svo er hún ekki heldur nísk:
hún hefur gefið mér hörpudisk
fyrir að yrkja um sig bögu. JH

Ekki eru það svo lítil laun að fá hörpudisk, en skáldalaun Jónasar hafa annars verið þau helst að öðlast elsku þjóðar sinnar og umfjöllun skálda og fræðimanna. Og öll góðu lögin hans Atla Heimis auk fjölmargra lagasmiða annarra. 

Vinar síns í Bessastaðaskóla minnist Jónas:

Þá varst það þú
er eg þegjandi
valdi mér
að vini fyrstum.
Síðan eg hefi
sælla stunda
allmargra notið,
ama horfinn,
besti Gísli!
að brjósti þér.

Annan Bessastaðasvein, Jón Árnason, undirbjó Ásmundur í Odda og kom honum í skólann 1837, með fulltingi sr. Þórðar bróður hans. Jón var orðinn 18 ára er skólaganga hans hófst og hafði farið 2 vetur í verið eins og fleiri fátækir skólapiltar gerðu á þeim árum. 

Jón verður með árunum handgenginn Sveinbirni Egilssyni kennara sínum og er orðinn heimiliskennari hjá þeirri stóru fjölskyldu þegar kemur að útskrift hans úr skólanum. Sveinbjörn var ekki aðeins kunnur fyrir kennslu sína, skáldskap og þýðingar heldur lifa barnagælur hans ennþá góðu lífi eins og Fljúga hvítu fiðrildin:

Leika landmunir
lýða sonum
hveim er fúss er fara.
Römm er sú taug
er rekka dregur
föðurtúna til. Ovid/Svbj.E. þýddi

Jón Árnason var fyrsti bókavörður við Landsbókasafnið en varð þó kunnari af söfnun sinni á þjóðsögum. Þann 17. ágúst næsta sumar verða 200 ár liðin frá fæðingu Jóns Árnasonar og verður þess minnst á Landsbókasafninu og á fæðingarstað Jóns, kirkjustaðnum Hofi norður á Skaga.

Tilvísanir:
Rekkar – menn
Bessastaðaskóli: https://is.wikipedia.org/wiki/Bessasta%C3%B0ask%C3%B3li 
Böðvar Guðmundsson: Jónas Hallgrímsson Ævimynd 16/11 2007
JH Sáuð þið hana systur mína: http://bragi.arnastofnun.is/ljod.php?ID=3682 
Æviþættir frá Jóni Árnasyni: http://stikill.123.is/blog/2016/06/21/750654/ 
Jón Árnason og nokkrar þjóðsögur: http://stikill.123.is/blog/2016/08/16/753120/
JÁ í wikipedíu: https://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_%C3%81rnason_(1819) 
Sveinbjörn Egilsson: http://bragi.arnastofnun.is/hofundur.php?ID=6268

Ingi Heiðmar Jónsson 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga