Frá Húnavöllum.
Frá Húnavöllum.
Fréttir | Sameining A-Hún | 13. desember 2018 - kl. 14:56
Fjárhagsáætlun Húnavatnshrepps samþykkt

Fjárhagsáætlun samstæðu A- og B-hluta sveitarsjóðs Húnavatnshrepps fyrir árið 2019 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar í gær. Gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu sem nemur um tæplega 27 milljónum króna. Tekjur eru áætlaðar 507 milljónir og gjöld með fjármagnsliðum 480 milljónir. Skuldahlutfallið er áætlað 50% fyrir árið 2019 sem má vera mest 150%. Í áætluninni eru álagningaprósentur fasteignagjalda óbreyttar frá yfirstandandi ári. Gjaldskrár hækka almennt í samræmi við verðlagsbreytingar nema að vistunargjald leikskóla  og gjaldskrá fyrir skólamötuneyti hækka ekki.

Í fundargerð sveitarstjórnar segir að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019 hafi, líkt og undanfarin ár, verið lögð áhersla á aðhald í rekstri. Jafnframt verði haldið áfram að viðhalda eignum sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir fjárfestingum og framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins að fjárhæð 91 milljón króna. Auk hefðbundinna viðhaldsframkvæmda er stefnt að því að klæða kennslustofuálmu að utan og endurbæta íbúðarhúsnæði í austurenda skólahúsnæðis. Áfram verður unnið að öðrum endurbótum skólahúsnæðis Húnavallaskóla og öðrum fasteignum sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að tekin verði lán á árinu 2019 fyrir um 50 milljónir króna til að standa undir viðhaldsframkvæmdunum.

„Þrátt fyrir miklar framkvæmdir á liðnum árum er fjárhagsstaða sveitarfélagsins góð. Sífellt erfiðara verður að uppfylla kröfur um að áætlanir sýni jákvæða rekstrarniðurstöðu vegna aukins kostnaðar við nær alla málaflokka. Þar vegur aukinn launakostnaður þyngst, á meðan tekjur hafa ekki aukist í sama hlutfalli. Því er afar mikilvægt að halda áfram að sýna ráðdeild í rekstri,“ segir í fundargerð sveitarstjórnar frá 12. desember sl.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga