Ólöf Ólafsdóttir. Ljósm: FE/Feykir.is.
Ólöf Ólafsdóttir. Ljósm: FE/Feykir.is.
Fréttir | 10. janúar 2019 - kl. 12:35
Lesendur Feykis völdu Ólöfu á Tannstaðabakka sem Mann ársins 2018 á Norðurlandi vestra

Lesendur Feykis völdu Ólöfu Ólafsdóttur á Tannstaðabakka sem Mann ársins 2018 á Norðurlandi vestra. Blaðinu bárust níu tilnefningar og hlaut Ólöf afgerandi kosningu lesenda. Ólöf er fædd og uppalin á Selfossi en hefur búið, ásamt manni sínum Skúla Einarssyni, á Tannstaðabakka við Hrútafjörð frá árinu 1984 en Skúli er uppalinn þar.

Þar reka þau kjúklingabú og segir Ólöf stefnuna vera að búa áfram í Hrútafirðinum þar sem samfélagið er gott og einnig tiltekur hún að þar sé til að mynda gott aðgengi að læknum sem ekki sé sjálfsagður hlutur alls staðar. Þau hjónin eiga fjögur uppkomin börn, þrjár dætur og einn son og býr ein dóttirin einnig á Tannstaðabakka með sinni fjölskyldu. Barnabörnin eru orðin átta og það níunda á leiðinni.

Í tilnefningu sem blaðinu barst segir: „Ólöf er þvílík gullkona, hún er með Parkinson en það stoppar hana ekki í því að gefa endalaust af sér. Til dæmis saumar hún teppi (bútasaum) og selur og gefur svo allan ágóða til góðgerðamála. Mikil perla.“

Með Parkinsonsjúkdóm og saumar bútasaumsteppi fyrir góðan málstað
Fyrir þremur árum greindist Ólöf með Parkinsonsjúkdóminn en telur að hún hafi verið lengur með sjúkdóminn án þess að gera sér grein fyrir því. Hefur hún vakið athygli fyrir jákvæðni sína og baráttu við sjúkdóminn en meðal þess sem hún tók sér fyrir hendur eftir að hún greindist var að sauma bútasaumsteppi og selja og hefur hún gefið andvirði þeirra til góðgerðamála í Húnaþingi vestra.

Ólöf segist hafa farið að taka til í saumaherberginu sínu og hófst handa við að sauma einföld bútassaumsteppi úr þeim bútum sem hún átti afgangs frá fyrri verkefnum. Aðspurð segist hún hafa tekið svolitla törn í bútasaumi og saumað teppi handa börnum sínum þegar þau voru lítil. „En svo er takmarkað hvað eitt heimili þolir af bútasaumi, þú getur ekki verið með þetta upp um alla veggi og út um allt svo þá hætti maður þessu bara,“ segir hún. Þegar Ólöf rifjaði svo upp kynnin við bútana eftir að hún greindist með sjúkdóminn gerði hún nokkur teppi sem seldust fljótt og brátt fóru henni að berast efnisafgangar frá öðru fólki. „Stelpurnar mínar gera grín að því að það er alveg sama þó ég sé að verða búin með 100 teppi, það er alltaf til fullt af efnum. Ég hef fengið mjög góð viðbrögð,“ segir Ólöf létt í bragði en teppin hefur hún selt á jólamörkuðum á Hvammstanga og sl. sumar seldi hún einnig á hátíðinni Eldur í Húnaþingi.

„Teppin eru náttúrulega mjög ólík og ég geri eiginlega aldrei tvö eins og alls ekki í sömu litum.  Ég fæ mikið út úr því að setja saman litina af því að þetta getur stundum verið svolítið púsl. Ég held líka að það sé voða gott fyrir hausinn á manni,“ segir Ólöf sem er nú þegar búin að sauma nokkur teppi til viðbótar og ætlar sér greinilega að halda ótrauð áfram.

Heimild: Feykir.is

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga