Frá Blönduósi
Frá Blönduósi
Gagnaverið séð úr lofti. Ljósm: Höskuldur B. Erlingsson
Gagnaverið séð úr lofti. Ljósm: Höskuldur B. Erlingsson
Fréttir | 22. febrúar 2019 - kl. 14:29
Gagna­ver hval­reki fyrir Blönduós

Blönduósbær hefur áhuga á að fá fleiri hugbúnaðar- eða tæknifyrirtæki á gagnaverssvæðið. Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar segir í Morgunblaðinu í dag að mikilvægt sé að nýta betur þá innviði sem fjárfest hafi verið í. Í þeim tilgangi taki bærinn þátt í stærstu gagnaverssýningu heims sem haldin verður í Þýskalandi í næsta mánuði. Þar verður Etix-verkefnið kynnt sérstaklega á „stóra sviðinu“.

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um uppbyggingu gagnaversins á Blönduósi og hvernig hún hafi komið hreyfingu á samfélagið þar. Rætt er við Valdimar sveitarstjóra og Björn Brynjúlfsson, forstjóra Etix Everywhere Borealis ehf. en félagið er nú að ljúka byggingu húsa fyrir hátt í 30 þúsund öflugar tölvur. Verið er að taka einingarnar í notkun jafnóðum og þær eru tilbúnar. Björn segir að allt verði komið í notkun í næsta mánuði og að búið sé að selja afkastagetu gagnaversins að mestu leyti. Hann segir að stærsti viðskiptavinurinn sé erlend bankastofnun sem sé með bakvinnslu sína í gagnaverinu.

Valdimar segir í frétt Morgunblaðsins að framkvæmdin hafi verið hvalreki fyrir verktaka á svæðinu og samfélagið á Blönduósi. Uppbygging gagnaversins hafi komið hreyfingu á atvinnulífið og fasteignamarkaðinn á svæðinu. Bjartsýni sé nú ríkjandi.

Upp undir 100 starfsmenn hafa á undanförnum vikum og mánuðum unnið við byggingu húsa og uppsetningu tækja gagnaversins. Framkvæmdin hefur margfeldisáhrif út í samfélagið. Ekki var byggt einbýlishús á Blönduósi í tíu ár, þar til í fyrra. Nú hefur sveitarfélagið úthlutað lóðum fyrir 27 íbúðir og 20 til viðbótar eru í undirbúningi. Gagnaversframkvæmdin hleypti þessu af stað, fasteignaverð hefur hækkað og eignir selst.

Nánar í Morgunblaðinu í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga