Málverk Ísleifs Konráðssonar Strandamanns af Hvítserk. Ljósm: reykjasafn.is
Málverk Ísleifs Konráðssonar Strandamanns af Hvítserk. Ljósm: reykjasafn.is
Tilkynningar | 16. mars 2019 - kl. 08:43
Fundaröð í mars í Húnabúð

Í næstu viku hefst í Húnabúð í Reykjavík fyrirlestraröð sem Byggðasafnsnefnd Húnvetningafélagsins í Reykjavík stendur að dagana  19., 21., og 28. mars. Fundirnir hefjast klukkan 17. Aðgangseyrir er 1.000 krónur og er boðið upp á kaffi og kleinur.

Einn merkasti gripur Byggðasafnsins á Reykjum er hákarlaskipið Ófeigur, sem á þar sína eigin skemmu. Veiðar á hákarli kostuðu langa útiveru, stórt skip og langan vað til veiðanna. Hákarlinn liggur gjarnan djúpt, 180-730 m á sumrin segir Wikipedia. En hákarlinn færir sig nær yfirborðinu á veturnar í þeirri von að ná sér í sel.

Byggðasafnsnefndin telur að hákarlinn verðskulda ekki kuldalegt viðmót af hálfu Íslendinga sem oft eru kuldalegir sjálfir. 

Íslendingar hafi of lengi haft horn í síðu hákarlsins.

Of lengi hafa þeir hrakyrt hann og kúgast yfir honum, nema þá helst með brennivíni á þorrablótum.

Um dagana hafa þeir kallað hann að minnsta kosti 85 nöfnum og flest eru þannig að þú vildir ekki bera þau sjálfur eða sjálf; gráni, deli, brettingur, doggur og raddali. Samt eru hákarlar tiltölulega þýðar hæfileikaskepnur; þeir geta til dæmis gleypt stóran sel í einum munnbita.

Ofangreindu og kuldalegu viðmóti vill Húnvetningafélagið í Reykjavík breyta. Það vill vingast við hákarla og rétta hlut þeirra og boðar þrjá fundi í Húnabúð, tvo í næstu viku en þann þriðja fimmtudaginn 28. mars

1. Þriðjudagurinn 19.3. Kynning á Byggðasafninu á Reykjum og hákarlaskipinu Ófeigi Jón Björnsson frá Húnsstöðum  glöggvar gesti á þema fundanna. Þór Magnússon fv. þjóðminjavörður segir frá safni og skipi.

2. Fimmtudagurinn 21.3. Hallgrímur Helgason rithöfundur - Hákarlaveiðar í nýjustu bók höfundarins, Sextíu kíló af sólskini.

3. Fimmtudagurinn 28.3. Klara Jakobsdóttir fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun fjallar um hákarl.

 Allir fundirnir verða í Húnabúð Skeifunni 11 og hefjast kl. 17.

Meira um hákarl: https://is.wikipedia.org/wiki/H%C3%A1karl
Úr ársgömlu Bændablaði: https://bbl.is/frettir/fraedsluhornid/hakarlinn-fyrr-og-nu-/18693/

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga