Fréttir | 15. apríl 2019 - kl. 09:56
Sprotasjóður styrkir skólastarf í Húnaþingi

Fjölskyldusvið Húnaþings vestra fékk nýverið 600 þúsund króna styrk úr Sprotasjóði fyrir skólaárið 2019-2020. Styrkurinn er vegna verkefnisins Samskipti og skapandi starf en samstarfsstofnanir fjölskyldusviðsins eru leikskólanir við Húnaflóa; Ásgarður á Hvammstanga, Barnabær á Blönduósi, Vallaból á Húnavöllum, Barnaból á Skagaströnd og Lækjarbrekka á Hólmavík. Félags- og skólaþjónusta A-Hún. fékk einnig styrk úr Sprotasjóði fyrir skólaárið 2019-2020, alls 586 þúsund krónur vegna verkefnisins Valgreinar á unglingastigi, saman sköpum við meiri fjölbreytni. Samstarfsstofnanir eru grunnskólarnir í Húnavatnssýslum; Höfðaskóli, Blönduskóli, Húnavallaskóli og Grunnskóli Húnaþings vestra.

Alls var úthlutað úr sjóðnum 57 milljónum króna til 44 verkefna sem má sjá hér.

Sprotasjóður styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá viðkomandi skólastiga. Áherslusvið styrkveitinganna nú eru á eflingu íslenskrar tungu, lærdómssamfélag og samvinnu milli skólastiga og færni til framtíðar. Alls bárust 100 umsóknir um styrki úr sjóðnum og var heildarupphæð umsóknanna rúmar 219 milljónir.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga