Frá afhendingu skýrslunnar. Ljósm: althingi.is
Frá afhendingu skýrslunnar. Ljósm: althingi.is
Fréttir | 15. apríl 2019 - kl. 11:03
Skýrsla um viðburði aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands hefur gefið út skýrslu þar sem finna má upplýsingar um framkvæmd afmælisársins og yfirlit yfir öll verkefni sem skráð voru á dagskrá afmælisins. Í skýrslunni er m.a. sagt frá merkingum sem settar voru upp í Leifsstöð þar sem tímamótunum voru gerð skil en það var samvinnuverkefni Isavia, Textílseturs Íslands og Prjónagleðinnar. Nemendur og starfsfólk Blönduskóla, Húnavallaskóla og Höfðaskóla prjónuðu stykki í fánalitunum sem nemendur Concordia háskólans í Kanada aðstoðuðu við að sauma saman í ljómandi fín teppi ásamt fleira góðu fólki. Teppin voru höfð til sýnis á Prjónagleðinni í júní í fyrra áður en þau fóru í Leifsstöð.

Afmælisnefndin styrkti Prjónagleðina til verkefnisins um eina milljón króna. Verkefninu var ætlað að auka þekkingu og innsýn grunnskólanemanna í söguna, samfélagið og fullveldishugtakið sem og að auka þekkingu á prjóni og mikilvægi þessa þjóðararfs í sögu landsins um leið og það er kynnt fyrir öllum þeim fjölda erlendra farþega sem fer um Leifsstöð.

Í skýrslunni er einnig sagt frá því að í tengslum við Prjónagleðina 2018 hafi Textílsetrið staðið fyrir samkeppni um fullveldispeysu. Markmiðið með samkeppninni var að draga fram samlíkingu á milli fortíðar og nútíðar í sögu lands og þjóðar með tilvísun til fullveldis Íslands. Afmælisnefnd veitti sigurvegara samkeppninnar viðurkenningu.

Þá er í skýrslunni minnst á Foldarskart sumarsýningu Heimilisiðnaðarsafnsins en safnið hefur boðið íslensku textíllistafólki að sýna og kynna list sína allt frá árinu 2003. Og auðvitað er minnst á Prjónagleðina á 100 ára fullveldi Íslands en hún samanstóð af námskeiðum, fyrirlestrum og sýningum. Markmið var, og er, að vekja áhuga og halda við þekkingu í prjónaskap.

Meðfylgandi mynd er fengin af vef Alþingis. Á henni er Einar K. Guðfinnsson formaður afmælisnefndar og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir framkvæmdastjóri að afhenda forsætisráðherra skýrsluna. Frá vinstri: Ragnhildur Arnljótsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Einar K. Guðfinnsson og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga - New