Skagaströnd
Skagaströnd
Fréttir | 14. maí 2019 - kl. 20:58
Sveitarfélagið Skagaströnd rekið með afgangi

Sveitarfélagið Skagaströnd var rekið með 16,5 milljón króna afgangi í fyrra, samanborið við 27,6 milljón króna afgangi árið 2017 og er niðurstaðan betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Ársreikningur sveitarsjóðs og stofnana fyrir árið 2018 var lagður fram til síðari umræðu á fundi sveitarstjórnar í dag og samþykktur. Rekstrartekjur samstæðunnar námu 610,3 milljónum króna en voru 577,8 milljónir króna árið 2014 og hafa því hækkað um 5,6% milli ára. Rekstrargjöld samstæðunnar námu 598,5 milljónum króna en voru 563,2 milljónir króna árið 2017 og jukust því um 6,3% milli ára.

Heildareignir sveitarfélagsins námu í árslok um 1,8 milljarði króna og eigið fé var rúmlega 1,3 milljarður króna. Langtímaskuldir námu 244,3 milljónum króna og tilheyra þær eingöngu félagslegum íbúðum, að því er fram kemur í fundargerð sveitarstjórnar. Veltufjárhlutfall samstæðunnar var 7,59 en var 12,77 í árslok 2017. Handbært fé nam 471 milljón króna í árslok 2018 samanborið við 457,9 milljónum króna í ársbyrjun. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 211,9 milljónum króna hjá samstæðu sveitarfélagsins á árinu. Engin ný lán voru tekin á árinu 2018.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga