Fréttir | 25. maí 2019 - kl. 09:46
Tína rusl úr fimm fjörum á Norðurlandi vestra

Í dag verða haldnar fimm lista- og vísindasmiðjur á vegum Textílmiðstöðvarinnar og samstarfsaðila þar sem allir áhugasamir um verkefnið eru hvattir til að mæta í eina af fimm fjörum á Norðurlandi vestra, safna saman rusli og reisa vörður undir leiðsögn nemenda frá Listaháskóli Íslands og listamanna sem dvelja á svæðinu. Tvær fjörur eru staðsettar við Sauðárkrók, Borgar- og Garðasandur, ein við Hvammstanga og tvær úti á Skaga, milli tveggja bæja sem heita Hafnir og Víkur, fjörur við Selvíkurtanga.

Markmiðið með verkefninu er að auka þekkingu almennings á umhverfismálum og mengun hafsins. Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi stýrir verkefninu í samstarfi við Biopol á Skagaströnd en tveir  vísindamenn hjá Biopol eru búnir að þræða norðurströndina til að skoða fjörur þar sem rusl berst að landi. Þeir hafa einnig tekið saman upplýsingar um plastmengun í hafinu sem má nálgast á vef Textílmiðstöðvarinnar.

Finna má nánari upplýsingar hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga