Fréttir | 10. júní 2019 - kl. 13:12
Jafntefli í Hólminum

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar heimsótti í gær lið Snæfells í Stykkishólmi í fjórðu umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla, 4. deild B-riðli. Fyrir leikinn var Snæfell í öðru sæti riðilsins en Kormákur/Hvöt í því þriðja. Leikurinn var fjörugur og skoruðu bæði lið tvö mörk. Leikurinn endaði sem sagt 2-2 og breyttist staðan á efstu liðunum í riðlinum ekkert en Hvíti riddarinn er á toppnum með fjóra sigra af fjórum mögulegum.

Ingvi Rafn Ingvarsson sá um markaskorun fyrir Kormák/Hvöt að þessu sinni. Hann skoraði fyrsta mark leiksins á tólftu mínútu og síðasta mark leiksins í uppbótartíma. Staðan var 1-1 í hálfleik en Snæfell komst yfir í byrjun seinni hálfleiks og allt leit út fyrir að Snæfell myndi vinna leikinn. En eins og áður sagði náði Ingvi Rafn að jafn í uppbótartíma og liðin urðu því að sættast á jafntefli.

Næsti leikur Kormáks/Hvatar fer fram á Blönduósvelli á föstudaginn klukkan 20:00 gegn Hvíta riddaranum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga