Fréttir | 12. júní 2019 - kl. 11:04
Smábæjaleikarnir eru um helgina

Smábæjaleikarnir í knattspyrnu fara fram á Blönduósi um helgina. Til leiks mæta knattspyrnulið yngri aldursflokka, bæði pilta og stúlkna, frá ýmsum bæjar- og sveitarfélögum af landinu. Búist er við um 400 þátttakendum og um 300 aðstandendum þeirra á leikana og því má gera ráð fyrir miklu fjöri í bænum um helgina. Knattspyrnudeild Hvatar stendur fyrir þessu vinsæla og eftirsótta knattspyrnumóti sem nú er haldið í 16. sinn. Um 70-80 sjálfboðaliðar verða að störfum á mótinu.

Móttaka keppnisliða fer fram í Félagsheimilinu á Blönduósi milli klukkan 18-22 á föstudaginn. Setning leikanna fer fram laugardagsmorguninn 15. júní klukkan 8:30 á íþróttavellinum og hefst mótið í kjölfarið. Kvöldskemmtun verður í íþróttahúsinu þennan dag og hefst hún klukkan 20:00. Jói Pé og Króli ætlar að skemmta keppendum og öðrum gestum og eru allir velkomnir. Mótslok og verðlaunaafhending eru áætluð klukkan 16 á sunnudaginn.

Opnunartími sundlaugarinnar á Blönduósi breytist lítillega um helgina vegna Smábæjaleikanna en opið verður frá klukkan 8 á morgnana til klukkan 20 á kvöldið bæði laugardag og sunnudag.

Smábæjaleikarnir eru á Facebook og með heimasíðu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga