Fréttir | 12. júní 2019 - kl. 20:16
Ársreikningur Blönduósbæjar samþykktur

Blönduósbær var rekinn með tæplega milljón króna tapi á síðasta ári. Rekstrartekjur námu um 1.072 milljónum króna og hækkuðu um 7,2% milli ára. Rekstrargjöld námu um 965 milljónum og hækkuðu um 8,4% milli ára eða um 75 milljónir. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 764 milljónir og fór eiginfjárhlutfallið úr 37,9% í 35,2%. Skuldaviðmið fór úr 104,1% í 118,8% og lögbundið skuldahlutfall fór úr 117,9% í 131,4%. Síðari umræða um ársreikning Blönduósbæjar 2018 fór fram á sveitarstjórnarfundi í gær.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu skuldir og skuldbindingar í árslok 2018 samtals 1.409 milljónum króna en voru 1.179 milljónir í lok árs 2017. Aukning milli ára skýrist meðal annars af lántöku til fjárfestinga á árinu, að því er segir í fundargerð sveitarstjórnar.

Þar segir einnig að rekstur Blönduósbæjar sé „mjög góður, í heildina litið, sérstaklega með tilliti til þess að á síðasta ári hófst mikil uppbygging í sveitarfélaginu, sem m.a. kallaði á fjárfestingu og lántöku, en sala eigna og tekjur af fjárfestingu munu skila sér 2019 og síðar.“

Ársreikningurinn var staðfestur af sveitarstjórn með sjö atkvæðum samhljóða.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga