Prestbakkakirkja. Ljósm: Aðsend.
Prestbakkakirkja. Ljósm: Aðsend.
Fréttir | 20. júní 2019 - kl. 15:33
Guðsþjónusta á Prestbakka
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Á sunnudaginn klukkan 14 verður guðsþjónusta á Prestbakka en gestaorganistar, einn eða fleiri, munu setjast nokkru áður við hið ágæta þriggja radda orgel frá Björgvin Tómassyni sem nýlega var keypt til kirkjunnar. Sóknarpresturinn sr. Guðni Þór á Melstað predikar og boðið verður í kaffi að lokinni messu. Guðmundur hagfræðingur Ólafsson segir frá langafa sínum, fræðimanninum Finni Jónssyni á Kjörseyri.

Jónsmessa fer nú í hönd og má vera okkur tilefni til að minnast þeirra sem skiluðu okkur góðum arfi. Fræðimennirnir og prestarnir sr. Jón Guðnason og sr. Ágúst Sigurðsson sátu fyrrum staðinn á Prestbakka og var minnst í messuskrá síðastliðið sumar.

Norður á Hofi á Skaga fæddist Jón Árnason bókavörður og þjóðsagnasafnari fyrir 200 árum. Haldin verður ráðstefna um hann og þjóðsagnaarfinn á Skagaströnd laugardaginn 17. ágúst. Einnig verður messað í Hofskirkju. Þangað verður gott að koma, en álitlegt má kalla að hittast fyrst í Prestbakkakirkju nú á sunnudaginn. Messur er elstu samkomurnar og tilheyrðu sunnudögunum.

Njótum þess - í hlýju sumars - að hittast, syngja saman og hlýða á guðsorð.

Af sömu slóðum er:
Sumarmessa á Prestbakka 2018: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=15061
Sumarmessa á Hofi 2016: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13102
Stökuspjall/Sálarkufl úr sólskini: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13068  

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga