Fréttir | 24. júní 2019 - kl. 13:23
Góður útisigur Kormáks og Hvatar

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar gerði góða ferð í Hafnarfjörðinn síðastliðinn föstudag er það sigraði lið ÍH með tveimur mörkum gegn engu. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en á 74. mínútu náði Sigurður Bjarni Aadnegard að brjóta ísinn og skora. Leikmaður ÍH varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 83. mínútu en þá voru leikmenn ÍH orðnir einum manni færri. Leikurinn fjaraði svo út og endaði með góðum sigri Kormáks/Hvatar.

Þetta var sjötti leikur Kormáls/Hvatar í B-riðli 4. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu karla og situr liðið í fjórða sæti með 11 stig, einu færra en Úlfarnir sem eru í þriðja sæti. Hvíti riddarinn er sem fyrr á toppi riðilsins með 16 stig en Snæfell er einnig með 16 stig í öðru sæti en með lakara markahlutfall.

Sjöunda umferðin verður spiluð á miðvikudaginn og föstudaginn þegar Kormákur/Hvöt mætir Úlfunum á Blönduósvelli klukkan 19:00. Gríðarlega mikilvægt að fá öll þrjú stigin í þeim leik fyrir heimamenn.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga