Fréttir | 14. júlí 2019 - kl. 17:09
Rúllað yfir KM í Reykjavík

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar gerði góða ferð til Reykjavíkur í gær er liðið mætti KM Reykjavík á KR vellinum í 9. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla 4. deild, B-riðli. KM átti aldrei séns og Kormákur/Hvöt hreinlega rúllaði yfir liði, skoraði sex mörk og fékk ekki á sig mark. Diego Moreno Minguez skoraði fyrsta mark leiksins á 17. mínútu og gerði hann annað mark á 34. mínútu en í millitíðinni, eða á 29. mínútu setti Bjarki Már Árnason boltann í netið. Viktor Ingi Jónsson gerði svo fjórða markið áður en flautað var til hálfleiks.

Í seinni hálfleik komu mörkin undir lok leiksins er Hilmar Þór Kárason skoraði á 87. mínútu og Juan Carlos Dominguez Requena á 90. mínútu. Lokatölur 0-6 fyrir Kormáki/Hvöt sem heldur áfram að setja pressu á efstu lið riðilsins. Á toppnum er Snæfell með 25 stig, í öðru sæti er Hvíti riddarinn með 22 stig og í þriðja sæti er Kormákur/Hvöt með 20 stig. Úlfarnir og KB eru svo í fjórða til fimmta sæti með 12 stig hvort félag.

Næsti leikur fer fram á Húnavöku, laugardaginn 20. júlí klukkan 16 á Blönduósvelli. Allir á völlinn!

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga