Fréttir | 10. ágúst 2019 - kl. 16:11
Kormákur/Hvöt fór á toppinn

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar tók á móti Hvíta riddaranum á Blönduósvelli í hádeginu í dag í fyrsta leik 12. umferðar Íslandsmótsins í knattspyrnu karla, 4. deild, B-riðli. Leikurinn fór strax fjörlega af stað og á 8. mínútu kom fyrsta markið en það var sjálfsmark hjá Hvíta riddaranum. Sigurður Bjarni Aadnegard tvöfaldaði forystu heimamanna á 12. mínútu með laglegu marki og svo var röðin komin að markamaskínunni Diego Moreno Minguez sem setti tvö mörk áður en flautað var til hálfleiks. Staðan 4-0 í leikhlé.

Seinni hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri og aðeins eitt mark skorað er Hvíti riddarinn náði að minnka muninn á 58. mínútu leiksins. Leikurinn endaði því 4-1 fyrir Kormáki/Hvöt. Með sigrinum kost liðið í fyrsta sæti B-riðils, um stund, en Snæfell spilar við KM þegar þetta er skrifað og staðan markalaus. Ef Snæfell sigrar í leiknum fer liðið í efsta sæti riðilsins með 31 stig en Kormákur/Hvöt er með 29 stig eftir umferðina.

Kormákur/Hvöt hefur verið á miklu skriði síðustu misseri og aðeins tapað einum leik í sumar, gert tvö jafntefli og unnið níu leiki. Liðið á nú alla möguleika á að fara í úrslitakeppni 4. deildar en tvö lið fara upp úr riðlinum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga