Húnavallaleið.
Húnavallaleið.
Fréttir | 12. ágúst 2019 - kl. 09:55
Skoðanakönnun um vegamál á Norðurlandi

Í skoðanakönnun sem unnin var fyrir Samgöngufélagið dagana 5. júlí til 8. ágúst síðastliðin voru bornar undir íbúa á Norðurlandi tvær spurningar sem varða vegamál í landshlutanum. Önnur þeirra var: „Hversu hlynntur eða andvígur ert þú gerð vegar, svonefndrar Húnavallaleiðar sunnan Blönduóss, sem styttir leiðina milli Norðausturlands og suður- og vesturhluta landsins um allt að 14. kílómetra?“. Samgöngufélagið hefur í mörg ár kallað eftir því að Húnavallaleið verði framkvæmd.

Svörin í könnuninni voru þau að 29,2% eru alfarið hlynnt Húnavallaleið, 18,7% mjög hlynnt, 18,4% frekar hlynnt, 22,2% hvorki hlynnt né andvíg, 3,4% frekar andvíg, 2,4% mjög andvíg og 5,7% alfarið andvíg Húnavallaleið. Samtals voru því 66% hlynnt gerð vegar um Húnavallaleið en 11,5% andvíg.

785 einstaklingar 18 ára og eldri búsettir á Norðurlandi, nánar tiltekið í póstnúmerum 530-691 eða frá Húnavatnshreppi til Vopnafjarðarhrepps voru valdir að handahófi úr viðhorfahópi Gallup. Fjöldi þeirra sem svöruðu var 425 en 360 svöruðu ekki. Þátttökuhlutfall var því 54,1%.

Hin spurningin var þessi: “Hér fyrir neðan eru nokkrar leiðir til breytinga á vegsamgöngum milli Norðausturlands og suður- og vesturhluta landsins. Vinsamlegast merktu við þá tvo kosti sem þú telur vænlegast að ráðist verði í.” ( Fyrir aftan hvern kost er hundraðshluti þeirra sem merktu við hverja leið í könnuninni.)

  • Gerð 10 km vegganga undir Öxnadalsheiði (40,7%).
  • Gerð nýs vegar um svonefnda Húnavallaleið sunnan Blönduóss (36,0%).
  • Gerð 15 til 20 km vegganga undir Tröllaskaga milli Sauðárkróks og Akureyrar (30,4%).
  • Lækkun vegar um Holtavörðuheiði  (30%). 
  • Uppbygging Kjalvegar milli Blöndudals austan Blönduóss og Gullfoss  (22,8%).
  • Gerð nýs vegar um svonefnda Vindheimaleið sunnan Varmahlíðar í Skagafirði (13,9%).  
  • Enga af ofantöldum (7,4%).

Samgöngufélagið hefur í mörg ár barist fyrir því að Húnavallaleið verði sett á samgönguáætlun. Í október í fyrra fór félagið af stað með undirskriftarsöfnun þar sem þess var krafist að leiðin yrði sett á samgönguáætlun 2019-2033 og hún fjármögnuð með hóflegum veggjöldum. Alls söfnuðust 577 undirskriftir. Bæði Blönduósbær og Húnavatnshreppur hafa hafnað þessari vegastyttingu og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hafa skorað á öll sveitarfélög landsins að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga í skipulagsmálum en tilefnið var framlögð þingsályktunartillaga nokkurra þingmanna árið 2011 um lagningu Svínavatnsleiðar eins og hún var kölluð þá.

Tengdar fréttir:

577 undirskriftir söfnuðust fyrir Húnavallaleið

Húnavatnshreppur á móti áformum um Húnavallaleið

Vilja Húnavallaleið aftur á dagskrá

Leiðarmenn gefast ekki upp

Húnavallaleið í einkaframkvæmd?

Nefnd fer yfir vegi og skipulag

Húnavallaleið út af borðinu

Ákvörðunin sé heimamanna

Skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga