Fréttir | 16. ágúst 2019 - kl. 07:07
Valdheimildir sveitarfélaga skertar í tillögum nefndar um miðhálendisþjóðgarð

Byggðarráð Húnaþings vestra telur að tillaga nefndar um stofnun miðhálendisþjóðgarðs feli í sér verulega skerðingu á valdheimildum sveitarfélaga og réttinda íbúa þeirra. Mörk þjóðgarðsins í tillögunni virðist fyrst og fremst vera tilkomin til þess að styrkja eignar- eða ráðstöfunarrétt ríkisins yfir landi á hálendi Íslands. Í bókun byggðarráðs frá fundi þess 12. ágúst síðastliðinn er það ósk þess að land innan marka sveitarfélagsins verði ekki hluti fyrirhugaðs þjóðgarðs á miðhálendinu.

Bókunin er lögð fram undir liðnum „umsögn um verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu, mál númer S-135/2019“ sem nú er í Samráðsgátt stjórnvalda. Byggðarráð Húnaþing vestra vill benda á að samkvæmt lögum er skipulagsvald, þ.e. vinnsla og samþykkt svæðis-, aðal- og deiliskipulags á höndum sveitarfélaga. Það er því ekki í verkahring ráðherraskipaðrar nefndar að hafa með beinum hætti áhrif á skipulag sveitarfélaga með því að gera tillögu að legu þjóðgarðs á miðhálendinu innan marka þeirra.

Í bókun byggðarráðs segir:

„Í fyrirliggjandi tillögu um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu felst skerðing á skipulagsvaldi sveitarstjórna með færslu þess til stjórnunar- og verndaráætlana. Þannig eru áhrif sveitarfélaga til þess að móta sér stefnu um uppbyggingu innviða, landnýtingu og landvernd innan marka þeirra verulega takmörkuð. Byggðarráð Húnaþings vestra bendir á að stjórnunar- og verndaráætlanir geta ekki takmarkað skipulagsvald sveitarstjórna.

Þjóðlendur innan marka Húnaþings vestra eru í afréttareign og því fylgir upprekstrar- og veiðiréttur auk annarra nýtingarréttinda. Byggðarráð Húnaþing vestra vill árétta mikilvægi þess að upprekstrar- og nýtingarréttur haldist um alla framtíð. Samkvæmt tillögum nefndarinnar verður nýting afrétta og ýmiskonar starfssemi háð stjórnunar- og verndaráætlunum. Stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu hefur þannig í för með sér skerðingu á nýtingarrétti íbúa sveitarfélagsins og takmörkun á rétti þeirra  til umferðar um land innan marka þess. Einnig er líklegt að setning atvinnustefnu innan þjóðgarðs valdi verulegum takmörkunum á tekjuöflun vegna starfsemi innan marka hans.“   

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga