Fréttir | 25. ágúst 2019 - kl. 10:01
Dramatískur sigur á Úlfunum
Sigur í riðlinum og úrslitakeppnin framundan

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar sigraði B-riðil 4. deildar í Íslandsmótinu í knattspyrnu karla en síðasta umferð riðlakeppninnar var leikin í gær. Fyrir leikinn var ljóst að liðið þyrfti að vinna leikinn til að komast áfram í úrslitakeppnina þar sem Hvíti riddarinn hafði unnið Snæfell og sátu þau lið í tveimur efstu sætunum með 34 stig hvort þegar leikur Kormáks/Hvatar og Úlfana hófst á Framvellinum í gær. Leikurinn var kaflaskiptur og dramatískur í meira lagi en endaði 4-5 fyrir Kormák/Hvöt og efsta sætið í riðlinum tryggt, sem og sæti í úrslitakeppni 4. deildar. Vel gert.

Leikurinn fór strax fjörlega af stað og leikmenn Kormáks/Hvatar voru greinilega staðráðnir í að byrja af krafti og uppskáru þeir tvö mörk snemma leiks, á 14. og 15. mínútu. Fyrst skoraði Hlynur Rafn Rafnsson og svo Óskar Smári Haraldsson. Og þannig stóðu leikar í hálfleik, 0-2.

Síðari hálfleikurinn fór ekki eins vel af stað því Úlfarnir minnkuðu muninn með marki á 49. mínútu. Tveimur mínútum síðar var leikmaður Kormáks/Hvatar, Juan Carlos Dominguez Requena, rekinn af velli með rautt spjald. Stuttu eftir ná Úlfarnir að skora og jafna leikinn 2-2. Staðan batnaðu svo ekki fyrir lið Kormáks/Hvatar á 60. mínútu þegar Miguel Martinez Martinez var rekinn af velli með rautt spjald og liðsmenn orðnir níu á vellinum gegn ellefu leikmönnum Úlfana.

Úlfarnir gengu á lagið og skoruðu tvö mörk með stuttu millibili og staðan orðin svört fyrir Kormák/Hvöt, 4-2, og innan við 25 mínútur eftir af leiknum. En leikmenn neituðu að gefast upp og á 79. mínútu minnkaði Hilmar Þór Kárason muninn með góðu marki og á 88. mínútu náði Bjarki Már Árnason að skora og jafna leikinn 4-4. Ótrúlega mögnuð frammistaða. Það var svo á annarri mínútu í uppbótartíma sem Ingvi Rafn Ingvarsson náði að skora síðasta mark leiksins sem tryggði Kormáki/Hvöt stigin þrjú í leiknum og þar með toppsætið í riðlinum og sæti í úrslitakeppni 4. deildar.

Kormákur/Hvöt mætir Hamri frá Hveragerði í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Fyrri leikurinn fer fram 30. ágúst í Hveragerði og seinni leikurinn á Blönduósvelli 3. september.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga